138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:32]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel hvaða leið var farin við það að einkavæða bankana. Ég skil mætavel að ríkið skilaði aftur eign sem það tók yfir og varð þar með að eign íslenska ríkisins, til skilanefndarinnar, þar er það í meðferð í eignarhaldsfélagi og kröfuhafarnir eru óbeinir eigendur. En hverjir eignast bankana? Skiptir það ekki máli? Hvað erum við að ræða hérna á Alþingi? Erum við ekki að ræða einmitt það að við einkavæðinguna sem fór fram árið 2002 hafi eignarhaldinu verið verulega ábótavant? Er hæstv. fjármálaráðherra ekki reiðubúinn að fallast á að ef hann gerir athugasemdir við það hvernig einkavæðingin fór fram á sínum tíma hlýtur honum um leið að vera umhugað um hvernig eignarhaldinu á bönkunum er háttað? Það er akkúrat það sem ég er að tala um.

Til að svara spurningum hæstv. fjármálaráðherra hefði ég talið að menn hefðu átt að fara mun gætilegar að því þegar menn skiluðu bönkunum aftur. Við skulum líka taka það með inn í reikninginn að Landsbankinn er enn þá í eigu ríkisins. Ég hefði talið að ríkið hefði í kjölfar eignarhluta síns t.d. farið í það að leiðrétta höfuðstólshækkanir á lánum heimilanna í landinu. Það er aðgerð sem ríkisstjórnin hefði átt að fara í meðan eignarhaldið var að fullu hjá íslenska ríkinu. Nú verðum við að beita öðrum tækjum og tólum.