138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í skýrslu nefndarinnar frægu er fjallað um það að orðræðan sé ekki rétt. Ég kom hérna með mjög jákvæða punkta gagnvart hæstv. fjármálaráðherra. Ég hélt hann mundi fagna þeim og hann mundi vinna með mér í því að vinna þetta áfram. Ég var ekki með neina gagnrýni neins staðar en samt fer hann í skotgrafahernað gegn mér. Þetta er dálítið skrýtið. Það er dálítið ankannalegt þegar maður kemur svona inn, ætlar að ræða hlutina …

(Forseti (SF): Forseti vill minna hv. þingmenn á að segja ekki hann heldur segja hæstv. fjármálaráðherra eins og er við hæfi.)

Já, hæstv. fjármálaráðherra, fyrirgefið, frú forseti. Ég hélt ég væri að koma hérna inn með jákvætt innlegg í þetta, ég talaði einmitt um þekkinguna sem kemur með þessu eignarhaldi. Ég talaði líka um tengslin. Ég hélt ég væri jákvæður. Ég ætla að vona að það verði áfram. Ég segi líka að þetta hafi verið hugmynd sem ég hafi komið að til þess að leysa deilurnar milli kröfuhafanna og nýju bankanna.

Síðan þurfum við að vinna að því núna öll saman, hv. þingmenn og aðrir, framkvæmdarvaldið líka, að finna þessu góðan farveg til að enda því að auðvitað verða það kröfuhafarnir sem á endanum eignast þessa banka. Þó að menn hafi skotið einhverju fyrirtæki þarna á milli munu þeir á endanum stjórna því fyrirtæki. Ég get ekki séð hvernig í ósköpunum annað er hægt. Við erum með eignarréttarákvæði í stjórnarskránni.

Ég vildi bara vinna með hæstv. fjármálaráðherra að lausn þessa máls í góðum hug og einmitt til þess að finna á þessu bestu lausn fyrir þjóðina. Þannig hef ég reynt að vinna nokkuð lengi og hef ekki farið mikið eftir flokkslínum eða verið í skotgrafahernaði.