138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, skýrsla nefndar skv. lögum nr. 142/2008.

[15:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hv. þingmann velvirðingar ef ég hef ekki tekið innleggi hans nógu jákvætt. Ég fagna því að sjálfsögðu þegar hv. þingmaður lýsir því yfir að hann telji að þarna hafi tekist vel til. Ég þekki sjónarmið hv. þingmanns og þess vegna kom mér á óvart ef ætti að fara að gera þetta núna að einhverju miklu tortryggnisefni eins og mér hefur fundist örla á í umræðu á köflum hér undanfarna daga. Það er frekar fátækleg málsvörn gagnvart því sem gerðist á sínum tíma því að hér er um ósambærilega hluti að ræða. Auðvitað eru það aðstæðurnar sem setja okkur mjög þröngar skorður í þessum efnum. Það er ekki eins og við höfum átt eitthvert óskaplega gott val. Við áttum þá þetta val að leggja fram gríðarlega fjármuni úr ríkissjóði sem við erum að útbúa sem skuldabréf, sem lán með vöxtum, og binda okkur þar með í þeim efnum, kemur sem skuld til ríkisins, vaxtaberandi við þessar aðstæður ofan á allar hinar skuldirnar og allan hinn vaxtakostnaðinn eða reyna að ná þessu fram sirka svona eins og tókst og ég held að hafi verið farsælt.

Að sjálfsögðu gæti maður óskað sér þess í hinum besta heimi allra heima að það hefði verið nóg af aðilum sem hefðu verið tilbúnir til þess að binda fé sitt í endurreisn bankakerfisins á Íslandi, innlendum aðilum sem hefðu kunnað til verka og hefðu verið traustir og góðir eigendur að bönkum, þannig að arðurinn af rekstri þeirra á komandi tímum hefði haldist hér innan hagkerfisins o.s.frv.

Ég er enginn sérstakur talsmaður, nema síður sé, erlendrar eignaraðildar í atvinnurekstrinum að breyttu breytanda sem auðvitað er ávísun á það að arðurinn af þeirri starfsemi flyst út úr hagkerfinu. Ef hitt er í boði vel ég það að sjálfsögðu. En það er ekki eins og við höfum átt það val. Það voru engir í biðröð til að gerast eigendur að þessum nýju bönkum og reiða þeim fram eigið fé við þær aðstæður og í þeirri óvissu sem við vorum.

Ég tel því að niðurstaðan hafi verið góð og ég hvet menn til að kynna sér málið vandlega og hætta að draga upp af þessu einhverja mynd sem hræðsluáróðursmynd. Það er nóg annað, það er nóg af raunverulegum vandamálum. Það er nóg af öðrum raunverulegum hlutum til að hafa áhyggjur af þó að við séum ekki að gera vandamál úr því sem þó hefur tekist vel hér í endurreisninni það sem af er. (Gripið fram í.)