138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[16:00]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. 60% endurgreiðslan, hlutfall virðisaukaskatts af vinnulaunum við endurbætur, hefur verið við lýði mjög lengi og ætti að vera regla sem flestum er kunn sem á annað borð þekkja almennt til þess sem í boði er á þessu sviði. Þetta er að sjálfsögðu vel þekkt meðal iðnaðarmanna. Ef menn sækja um lán og fyrirgreiðslu, hvort heldur er í banka eða til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarframkvæmda af þessu tagi, geri ég ráð fyrir því að það komi inn í greiðslumat og mat á stöðu manna. Maður treystir því nokkuð að þeir sem til þekkja og um þetta fjalla tryggi að mönnum sé þessi réttur sinn ljós. Þó er alveg rétt að það er mikilvægt að kynna hann þannig að sem fæstir missi af honum vegna þess að þeim sé hann ekki ljós og þeir beri sig ekki eftir þessu. Þess vegna var m.a. farið í ítarlegt kynningarátak á því í fyrravetur þegar endurgreiðsluhlutfallið var hækkað úr 60 í 100%. Að vísu er ekkert launungarmál að það var gert í og með til þess að reyna að hvetja til framkvæmda, því það var tilgangur aðgerðanna að fá meiri umsvif í gang og það tókst, en um leið var það kynning til fólks um að það ætti þennan rétt, þennan möguleika.

Þegar þetta er orðið hvort tveggja, endurgreiðsla á virðisaukaskattsþættinum að fullu og nokkur frádráttarmöguleiki á tekjuskatti, held ég nú að það sé orðið nægjanlega girnilegt og eftir nógu miklu að sækjast til þess að flestir ættu að bera sig eftir því, alla vega ef um einhverjar umtalsverðar framkvæmdir er að ræða. Auðvitað hafa menn lent í því, og örugglega einhverjir í þessum sal, að vera í minni háttar viðhaldsframkvæmdum og standa ekki í því að sækja sér endurgreiðslu á virðisaukaskattinum. Það skal sá sem hér stendur fúslega játa að hafa gert. Ég hef ekki séð eftir því þótt ríkissjóður héldi þeim peningum. Þegar um meiri háttar framkvæmdir er að ræða eru þetta þó kannski orðnir talsverðir fjármunir og þá reiknar maður almennt með því að fólk beri sig eftir þeim.