138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

tekjuskattur.

506. mál
[16:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessari breytingu, þessu frumvarpi sem við ræðum hér, er ætlað að hvetja til þess að menn fjárfesti í viðhaldi og þá þarf þekkingin að vera til staðar um að menn geti dregið þetta frá skatti líka. Það sem ég átti við með flækjustiginu er að það er alltaf stór hluti þjóðarinnar sem fylgist ekki með og hefur ekki sérstakan áhuga á þessu. Eftir því sem menn flækja skattkerfið meira — það er búið að flækja það óhemjumikið síðasta hálfa árið — eru alltaf fleiri og fleiri sem vita um allar smugurnar og öll réttindin sem þeir eiga og skattkerfið endar með því að verða ófélagslegt. Þeir sem eru snjallir, hafa endurskoðendur á sínum snærum og hafa þekkingu, eru jafnvel endurskoðendur sjálfir og vita nákvæmlega um skattkerfið eins og hæstv. fjármálaráðherra, munu að sjálfsögðu nota sér allt það sem kerfið býður upp á en ég óttast um hina sem fylgjast ekki eins mikið með alla daga. Ég óttast um mennina sem eru með verkefni, vinna allan daginn og geta ekki legið í blöðunum. Þessi frétt kemur kannski í sjónvarpinu örstutt en svo er hún farin og þeir vita bara ekkert af því. Þeir fara ekki í viðhald sem ættu rétt á að fá endurgreitt. Það er þetta sem ég á við: Eftir því sem kerfið verður flóknara, þeim mun ófélagslegra verður það.