138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

olíugjald og kílómetragjald.

531. mál
[16:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

Breytingunum samkvæmt frumvarpi þessu er m.a. ætlað að takmarka aðgengi að litaðri olíu og auðvelda eftirlit með því fyrirkomulagi sem þar er.

Í fyrsta lagi er lagt til að söluaðilum olíu verði óheimilt að selja litaða olíu í sjálfsafgreiðsludælum nema viðskiptavinur greiði fyrir eldsneytið með viðskiptakorti frá söluaðilanum sjálfum. Þessi breyting er lögð til vegna gruns um að litaðri olíu sé í miklum mæli dælt á einkabíla á sjálfsafgreiðslustöðvum og talið er að tap ríkissjóðs vegna þessa nemi u.þ.b. 160 millj. kr. á ári.

Önnur tillaga frumvarpsins snýr að lagfæringu á lögum þannig að tekinn er af allur vafi um að greiða þurfi kílómetragjald vegna eftirvagna.

Loks er lagt til að sektir vegna misnotkunar á litaðri olíu verði hækkaðar og látnar fylgja verðlagi m.a. til að viðhalda varnaðaráhrifum þeirra.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.