138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:29]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Í frumvarpi þessu er m.a. að finna ákvæði um að fjármálaráðherra sé heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að standa að nauðsynlegum undirbúningi og láta bjóða út byggingu nýs Landspítala, háskólasjúkrahúss við Hringbraut í Reykjavík, og að semja um að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu að loknu útboði.

Þá sé fjármálaráðherra heimilt í þessu skyni að leggja félaginu til hluta þeirra lóðarréttinda sem spítalinn hefur yfir að ráða við Hringbraut undir bygginguna.

Verkefni um nýtt háskólasjúkrahús, nýjan Landspítala, hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Í tengslum við stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins í lok júní árið 2009 var stofnað til viðræðuvettvangs með lífeyrissjóðum um aðkomu þeirra að fjármögnun stórra framkvæmda. Verkefni um nýjan Landspítala hefur verið kynnt sjóðunum og á fundi ríkisstjórnar Íslands 25. september 2009 var ákveðið að setja undirbúning framkvæmdarinnar af stað með sex manna verkefnisstjórn til viðræðna við sjóðina um aðkomu þeirra að verkefninu og útboð á frumhönnun nýs Landspítala.

Þann 4. nóvember 2009 undirrituðu fulltrúar tuttugu lífeyrissjóða og heilbrigðis-, forsætis- og fjármálaráðherrar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar viljayfirlýsingu um að hefja samstarf um undirbúning að fjármögnun, útboði og framkvæmdum við nýbyggingu Landspítala við Hringbraut. Yfirlýsingin sýnir fram á stuðning við verkefnið og skapar nauðsynlegan trúverðugleika þess. Viðkomandi lífeyrissjóðir eru með 83,22% af heildareignum lífeyrissjóða landsmanna innan sinna vébanda.

Heilbrigðisráðherra tilkynnti í byrjun nóvember 2009 um skipan verkefnisstjórnar, en hlutverk verkefnisstjórnar hefur fyrst og fremst verið að sjá um að skapa formfestu í verkefninu, sjá um undirbúning hönnunarsamkeppni, annast samskipti við þá sem hafa lýst yfir áhuga á fjármögnun verksins, annast samskipti við skipulagsyfirvöld og að hafa umsjón með samningum við hönnuði.

Þann 9. desember 2009 óskaði verkefnisstjórnin eftir ábendingum frá Ríkisendurskoðun um verkefnið í ljósi ákvæða laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, og heimildarákvæða fjárlaga að höfðu samráði við hlutaðeigandi ráðherra, þ.e. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra. Að mati Ríkisendurskoðunar var talið nauðsynlegt að sett yrðu sérlög um byggingu nýs Landspítala, jafnvel þótt 30. gr. fjárreiðulaga sé talin eiga við, sem kveður m.a. á um að einstökum ráðherrum sé heimilt, með samþykki fjármálaráðherra, að gera verksamninga og samninga um rekstrarverkefni sem undir ráðuneytið heyra til lengri tíma en eins árs við þá ríkisstofnun sem sinnt hefur verkefninu, aðrar ríkisstofnanir, sveitarfélög eða einkaaðila, enda sé áætlað fyrir verkefninu í fjárlögum. Ekki sé hér eingöngu verið að skuldbinda ríkið til langs tíma, heldur jafnframt talið að verið sé að ráðstafa eignum og kveða á um fyrirkomulag framkvæmda. Það er með öðrum orðum að mati Ríkisendurskoðunar ekki fullnægjandi, í ljósi umfangs verkefnisins og þeirra skuldbindinga sem ríkið gengst undir, að afgreiða þetta einungis með heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga eins og menn hafa þó látið sig hafa að gera hér stundum á umliðnum árum.

Þann 23. desember 2009 auglýstu Ríkiskaup, fyrir hönd verkefnisstjórnar, eftir teymum sérfræðinga til að taka þátt í forvali vegna fyrirhugaðrar frumhönnunarsamkeppni um skipulag lóðar Landspítala og Háskóla Íslands við Hringbraut og frumhönnunar nýbyggingar Landspítala.

Nýbyggingin skiptist í þrjá meginhluta. Þeir eru bráðakjarni með bráðamóttöku, myndgreiningu, gjörgæslu, skurðstofum og rannsóknarstofum, legudeildir með 180 rúmum sem öll eru í einbýli og sjúklingahótel með 80 herbergjum. Jafnframt er um að ræða frumhönnun á 11.000 fermetra byggingu fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands en kostnaður vegna þess hluta verkefnisins verður borinn af Háskóla Íslands. Við mat á innsendum samkeppnislausnum verður m.a. litið til arkitektúrs, ytra og innra skipulags, áfangaskiptingar, sveigjanleika, tækni og tæknikerfa, umhverfissjónarmiða, byggingarkostnaðar, rekstrarkostnaðar bygginga og heildarhagkvæmni starfseminnar. Er ráðgert að sá þáttur vegi 85% af heildareinkunn en tilboð í hönnunarþóknun vegi 15%. Gert er ráð fyrir að það teymi sem verður hlutskarpast í samkeppninni vinni að hönnun verkefnisins fram að samstarfsframkvæmdarútboði en starfi að því loknu við verkefnisstjórn og hönnunarrýni með verkkaupa.

Gert er ráð fyrir að samningar verði gerðir við hönnunarteymi sem vinnur samkeppni í lok júlímánaðar 2010 og mun sjóðstreymi verkefnisins aukast verulega við það. Fram að þessu hefur verkefnið verið fjármagnað með fjárheimildum sem veittar voru á fjárlögum 2008. Í fjáraukalögum 2009 voru fjárheimildir þess árs bakfærðar og ekki er um frekari fjárheimildar í fjárlögum 2010 að ræða.

Í 6. gr. fjárlaga 2010 er að finna heimild um ráðstöfun eigna Landspítala inn í verkefnið sem geta tryggt veðhæfi þess á hönnunartíma. Þrátt fyrir þá heimild er talið mikilvægt að sérlög liggi einnig fyrir þar sem um er að ræða skuldbindingu ríkisins til langs tíma, verið er að ráðstafa eignum, kveðið er á um fyrirkomulag framkvæmda og heimildir og markmið verkefnisins er að leigja sjúkrahúsbyggingar til langs tíma, með það að markmiði að eignast síðan fasteignirnar að þeim tíma loknum.

Nýr Landspítali í þessari samstarfsframkvæmd við lífeyrissjóði um verkefnið kallar á aðra nálgun við verkefnisstjórn og útboð en í hefðbundnum opinberum verkefnum. Almennt hefur aðferðafræði þar sem samstarf af þessu tagi hefur verið á ferðinni gengið undir nafninu einkaframkvæmd opinberra verkefna. Við verkefni af þessu tagi verður að hafa fjölmörg atriði í huga og henni fylgja vissulega bæði kostir og gallar.

Telja verður að það sé mikill kostur fyrir hið opinbera að kostnaður þess sé ákveðinn fyrir fram og greiðslur til framkvæmdaraðila séu tiltölulega fastmótaðar yfir samningstímann, sem getur náð yfir nokkra áratugi. Með þessu móti getur hið opinbera fært talsvert af áhættu verkefnisins yfir á framkvæmdaraðilann sem ber allan ófyrirséðan kostnað. Tilhögunin skapar því hvata fyrir framkvæmdaraðila til að meta á raunhæfan máta heildarkostnað verkefnisins þar sem nánast ógerningur er að krefjast viðbótargreiðslna vegna ófyrirséðs kostnaðar. Þetta hefur það í för með sér að við undirritun samnings um samstarfsframkvæmd vegna nýs Landspítala ná stjórnvöld að tryggja kostnað yfir allan framkvæmdatímann, sem er til mikilla bóta. Að sama skapi tryggir slík tilhögun að ríkið getur metið kostnaðinn heildstætt áður en það skuldbindur sig til greiðslu fjár og á því þann möguleika að snúa til baka frá hugmyndinni ef kostnaðurinn reynist of hár.

Stjórnvöld hafa talið það heppilegt fyrirkomulag við samstarfsframkvæmdarverkefni að útgjöldum vegna framkvæmdar sé jafnað yfir líftíma eignarinnar í stað þess að allur kostnaður sé gjaldfærður við upphaf framkvæmda eins og annars er gert. Fjárfesting í samstarfsframkvæmd kemur ekki inn á fjárfestingahreyfingar í ríkisbókhaldi. Venjan er að stjórnvöld hefji að sama skapi ekki greiðslur fyrr en eftir að framkvæmdum er lokið. Enn á ný skapar það hvata fyrir framkvæmdaraðila til að ganga eins hratt og örugglega frá verkinu og nokkur kostur er til að tryggja innstreymi fjár frá verkkaupa og hefja öflun tekna. Um þessi atriði þarf þó að semja sérstaklega vegna byggingar nýs Landspítala.

Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum, er í samræmi við framangreint ekki gert ráð fyrir frekari framlögum úr ríkissjóði til starfsemi Landspítalans í tengslum við þetta verkefni umfram þær 20 millj. kr. sem settar verða í hlutafé hins opinbera hlutafélags.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. fjárlaganefndar sem ég tel eðlilegast eðli málsins samkvæmt að fái málið til skoðunar og til 2. umr. að aflokinni þessari.