138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð málsins. Fram kemur í frumvarpinu að meginniðurstöður ráðgjafarfyrirtækjanna tveggja sem fóru yfir þetta verkefni að það sé mun dýrara að „gera ekkert“ en að ráðast í framkvæmdir. Ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hægt sé að fá þessar upplýsingar og þessa útreikninga, en samkvæmt mínum upplýsingum er áætlað að það sparist um 2,5 milljarðar á ári, annars vegar 2 milljarðar í sambandi við hagræðingu á mannskap og starfsfólki og hins vegar 500 milljónir í sparnað við að reka gömlu húsin. Því vil ég beina því til hæstv. fjármálaráðherra hvort hægt sé að fá þessi gögn og upplýsingar um hvað liggur þarna að baki. Ég hef spurt aðila sem starfa í heilbrigðisgeiranum hvort þeir hafi rýnt þessar tölur og skoðað þær, mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert af þeim stéttum sem þar starfa, þ.e. að þegar verið er að breyta starfseminni á sjúkrahúsinu, hvort staðan sé raunverulega sú að það sé alveg fastur grunnur fyrir því að þessi sparnaður sé klár og það komi ekki upp þegar fara á að reka spítalann að ekki sé hægt að hagræða eins mikið og gert var ráð fyrir í upphafi, eins og við höfum svo oft orðið vitni að.

Einnig vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra um það hvort búið sé að kostnaðarreikna þau samgöngumannvirki sem hugsanlega þarf að fara í eða hvort ekki þurfi, að mati hæstv. ráðherra, að fara í stórkostlegar samgönguframkvæmdir í ljósi þessa. Hefur þetta verið skoðað heildstætt? Það sló mig í umræðum hér í vetur að hæstv. samgönguráðherra taldi það verkefni skipta jafnvel tugum milljarða. Er búið að setja það inn í heildaráætlunina um framkvæmd þessa verkefnis?