138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Það sem ég var líka að kalla eftir í fyrra andsvari mínu var hvort búið væri að leggja mat á þær samgönguframkvæmdir sem fara ætti í. Ég gerði mér grein fyrir því og las það út úr frumvarpinu hversu mikill kostnaður var við þetta verkefni eitt og sér.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra, af að því nú liggur fyrir að mjög mikið af ónýttu húsnæði einmitt í heilbrigðiskerfinu er á kragasvæðinu, hefur það verið skoðað heildstætt hvort skynsamlegt sé að nýta það eitthvað frekar?

Eins langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það verið skoðað og teldi hann skynsamlegt að skoða það að byggja hugsanlega spítalann á öðrum stað frekar en að festa sig við Landspítala og stækka hann og nýta 53.000 fermetra af því húsnæði sem þar er? Hugsanlega mætti byggja nýjan spítala alveg frá grunni sem þyrfti mun færri fermetra og það yrði þar af leiðandi ódýrara á fermetra að byggja upp og hagkvæmara (Forseti hringir.) að mörgu öðru leyti. Hver er skoðun hæstv. ráðherra á því?