138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:43]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi samgöngumannvirkin skal bara hreinlega játað að ég hef ekki sett mig sérstaklega ofan í það mál. Ég hélt í barnaskap mínum, sem vonandi er nú ekki alger, að menn væru þegar búnir að ráðast í stóran hluta þeirrar fjárfestingar sem leiddi af þessari staðsetningu Landspítalans. Eða til hvers var færsla Hringbrautarinnar út í Vatnsmýrina og öll þau ósköp af steypu sem þar eru og malbiki, sem sumir kölluðu flugvöll númer tvö í Vatnsmýrinni, nema til þess að undirbúa umferðarmannvirkin á svæðinu þannig að Landspítalasvæðið gæti runnið saman sem eitt byggingarsvæði? Ég hélt og held að það sé stærsti hluti kostnaðarins. Að sjálfsögðu mun þurfa lóðir og bílastæði og einhverjar tengingar þarna við, en stóra umferðaræðin var færð og flutt einmitt til að rýma til fyrir byggingu Landspítala á einum stað.

Ég held að það sé rétt lausn að byggja á núverandi stað. Ég held að ef menn ættu nóg af peningum og gætu gert það sem þeir vildu, kynni vel að vera að til lengri framtíðar litið hefði það verið mögulegur kostur að byggja frá grunni algerlega sjálfstæðan spítala á nýjum stað, (Forseti hringir.) en það hefði verið gríðarlega dýr og mikil framkvæmd og orðið að afskrifa öll gömlu mannvirkin. Þessi endurskoðuðu áform, sem eru miklu hógværari en þau sem upp var lagt með og hafa verið minnkuð verulega (Forseti hringir.) að umfangi, hafa líka þann kost að nýtilegt húsnæði sem fyrir er á lóðinni mun nýtast til frambúðar.