138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:49]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég játa það hreinskilningslega að ég fagna mjög áformum af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Þó svo að framlag ríkisins inn í verkefnið sé ekki nema 20 millj. kr. þá er þetta tekið úr þeim farvegi sem þessi margumrædda 6. gr. heimild hefur boðið upp á. Það gefst þá fyllra tækifæri til að ræða verkefnið og leggjast betur yfir það eins og mér skilst að ætlunin sé að fjárlaganefndin geri og ég fagna því enn og aftur. Það er í samræmi við þær áherslur sem ég hef talað fyrir í fjárlaganefndinni. En grunnhugsunin í málinu er hins vegar í mínum huga nákvæmlega sú hin sama, þ.e. þetta er í grunninn sama verklag og sama aðferð við það að fjármagna ríkisframkvæmd, eins og þessi einkaframkvæmd hefur hingað til verið kölluð, sem ég hef alltaf sett ákveðinn fyrirvara við, ekki endilega af pólitískum ástæðum eins og ætla mætti, heldur fyrst og fremst vegna þess að ég hef goldið varhuga (Forseti hringir.) við þeim kostnaði sem af því leiddi fyrir opinbera aðila.