138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður erum fullkomnir skoðanabræður í því að almennt séð er betra og hreinlegra að ríki og sveitarfélög byggi mannvirki sín og fjármagni verkefni sín beint, ef þau eru í aðstöðu til þess. En þær aðstæður eru ekki nú um stundir og þess vegna hafa menn farið í að skoða þetta fyrirkomulag og þar eru lífeyrissjóðir landsmanna fyrst og fremst í sigti sem fjármögnunaraðilar. Þeir eru auðvitað ekki hver sem er, lífeyrissjóðirnir eru framtíðarlífeyrissparnaður landsmanna. Ég segi fyrir mitt leyti að ég geri mikinn greinarmun á því hvort sá sem reiðir fram fjármagnið og fær eftir atvikum af því einhverja ávöxtun, sem kemur að sjálfsögðu frá leigutakanum, það er ljóst, eru lífeyrissjóðirnir okkar eða einhverjir aðrir aðilar, t.d. erlendir fjárfestar. Því arðurinn eða ávöxtunin gengur til uppbyggingar lífeyrissjóðanna, helst innan hagkerfisins og kemur til útgreiðslu sem lífeyrir á komandi tímum, (Gripið fram í.) verði það niðurstaðan, sem yfirgnæfandi líkur eru á, að lífeyrissjóðirnir sjái sér hag í að bjóða þannig (Forseti hringir.) í verkefnið að þeir verði fyrir valinu.