138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að undirbúningurinn fyrir þetta verkefni hafi verið vandaður í alla staði og að farið hafi verið með það fyrir Alþingi með þeim hætti sem lög og reglur gera ráð fyrir. Það sem er gert nú, sem ekki hefur verið gert áður með framkvæmdir sem ríkið kemur að eða tengist á grundvelli fjármögnunar utan frá, er að lagt er fyrir þingið að sett verði sérstök lög um þetta. Í tengslum við vinnu sína að þessu frumvarpi geta Alþingi og þingnefndin að sjálfsögðu aflað sér allra þeirra gagna sem þau vilja. Það var rætt hér áðan og sjálfsagt að aðstoða við að reiða þau gögn fram. Ég tek að vísu fram að það er ekki sérstaklega á minni könnu eða í mínum höndum, ég flyt þetta mál sem fjármálaráðherra þótt faglega hliðin og undirbúningurinn sé að sjálfsögðu á verksviði heilbrigðisráðherra sem og gögn og annað slíkt sem til þarf, en það er sjálfsagt að reiða það fram.

Ég tel þetta algjörlega ósambærilegt við það þegar sveitarfélög hafa gengið mjög langt í því að skuldbinda sig til frambúðar, án (Forseti hringir.) þess að greina það í efnahagsreikningum sínum. Hér er ekki verið að draga neitt undan heldur þvert á móti verið að búa vel um það í lögum. Munurinn er líka sá að ríkið og íslenskt samfélag (Forseti hringir.) eiga ekkert val. Við verðum að eiga góðan Landspítala – háskólasjúkrahús.