138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:58]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í erlendum fréttamiðlum er varla fjallað um annað núna heldur en eldgosið á Íslandi og þau áhrif sem það hefur haft í Evrópu. Allt flug hefur lagst af á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Hollandi og lítur út fyrir að Evrópa sé hreinlega að lokast og talað um í því samhengi að Evrópa hafi hótað að einangra Ísland og Ísland brugðist við með því að einangra Evrópu. En að öllu gamni slepptu þá standa yfir gríðarlegar náttúruhamfarir sem þarf að bregðast við. Það getur þurft að bjarga miklum bústofni á Suðurlandi. Heilu jarðirnar eru að eyðileggjast. Hér eru erlendir ferðamenn strandaglópar. Íslendingar eru fastir í útlöndum og við höldum áfram samkvæmt dagskrá eins og ekkert hafi í skorist. Hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Árni Johnsen bentu reyndar á þetta strax í morgun en ekki hefur verið brugðist við því.

Ég vil því skora á forseta að breyta dagskrá, þannig að þingið geti farið að ræða þessi mál.