138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[16:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og vona svo innilega að forseti taki vel þessum ummælum og þessari vinsamlegu bón um að hér verði rædd þau stórtíðindi sem eiga sér stað í Eyjafjallajökli og að allt sé að lokast í Evrópu. Það var bent á þetta hér í morgun en lítið hefur gerst. Svo virðist sem við á Alþingi ætlum að láta eins og ekkert hafi í skorist. Ég held að það sé ekki gott. Ég held að það sé kallað eftir því hvarvetna í heiminum að þetta sé rætt í sölum Alþingis. Mér þætti líka gott að heyra skoðun hæstv. fjármálaráðherra á því sem hér hefur komið fram.