138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í 40. gr. stjórnarskrárinnar stendur, með leyfi frú forseta:

„Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Svo stendur í 41. gr.:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Mér sýnist, frú forseti, að menn ætli að halda áfram á þeirri braut í vaxandi mæli að plata sjálfa sig, plata skattgreiðendur framtíðarinnar, plata börn þessa lands sem taka við þeim greiðslum og sköttum sem hér er verið að taka ákvörðun um.

Þetta er að sjálfsögðu einkaframkvæmd. Menn geta kallað það einhverju öðru nafni ef þeir vilja en þetta er einkaframkvæmd. Hún skuldbindur ríkissjóð til framtíðar. Það á að stofna hlutafélag sem á að borga leigu og fjármálaráðherra framtíðarinnar sem hugsanlega lendir í einhverjum áföllum, eins og t.d. að greiða af Icesave ef menn skyldu nú gefast upp í því máli, neyðist til þess að skera niður en hann getur það ekki. Fjármálaráðherra framtíðar getur ekki lækkað þessa leigu, alveg sama hvað á dynur. Þess vegna vil ég vara eindregið við þessu. Menn eiga bara að kalla þetta því sem það heitir. Þetta er skuldbinding. Þetta er lán. Og menn eiga að færa það í reikninga ríkissjóðs að hér sé verið að fara út í 50 milljarða framkvæmd sem ríkissjóður á að greiða. Það getur vel verið að menn ætli sér að plata Alþjóðagjaldeyrissjóðinn með þessu og hann láti platast. Ég ætla að vona að hann sé þá ekki að hlusta, frú forseti, því að hann gæti komist að raun um að þetta sé í rauninni skuldbinding á ríkissjóðs.

Hér er allt opið, en ég tek undir að þetta er betra en þegar farið var fram með Hörpu, sem hét tónlistarhús einu sinni og er alveg skelfilegt dæmi, nákvæmlega á sama hátt og sveitarsjóður Álftaneshrepps lenti í líka, hann drukknaði í laug sem hann réði ekki við. Mér finnst að menn þurfi virkilega að skoða þennan þátt. Ég hélt að menn ætluðu að taka sér tak og vera gagnsæir og sýna þær skuldbindingar sem þeir eru að taka á sig, hvort sem það er ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklingar.

Ég vil þess vegna velta því inn í spurningu mína hvort þetta verði ekki örugglega fært sem skuldbinding í ríkissjóð, þessi leigutími sem ég veit ekki hve langur verður, ég hugsa að hann verði um 40 ár, ég giska á það, 40–50 ár og sinnum leigan. Það yrði fært sem skuldbinding nákvæmlega eins og lántaka því að þetta er ekkert annað en lántaka.

Svo ætla ég að fara út í smá tæknileg atriði. Ég er náttúrlega að sjálfsögðu hlynntur því að menn fari að byggja þennan spítala vegna þess að sagt er að það sé sparnaður af því, sérstaklega þegar menn urðu svona hógværir í kröfunum. En það eru tveir gallar við þennan spítala. Annars vegar er það staðsetningin. Hún tekur mið af Háskóla Íslands. Ég fullyrði að staðsetningin er þarna vegna þess að Háskóli Íslands er innan göngufæris. Það er ekkert annað. Í staðinn fyrir að keyra stúdenta og prófessora eitthvað pínulítið lengra og sjúklingana styttra þá er þessi framkvæmd miðuð við prófessora og stúdenta. Því miður. Ég fór á kynningu um þetta verkefni fyrir löngu síðan, það var talað og talað um háskóla og nemendur en ekki orð um sjúklingana. Ég hélt að þessi bygging væri fyrir sjúklinga, en þetta er háskóla-„eitthvað“.

Svo er það byggingin. Vegna þess að staðsetningin er þarna er byggingin lárétt, sem þýðir langa leið á milli tveggja herbergja, lengstu leið. Stysta leið milli tveggja herbergja er þegar bygging er lóðrétt. Mér skilst, þó að ég hafi ekki mikið vit á því, að flestir spítalar í heiminum séu byggðir lóðrétt, einmitt út af því að það er stysta fjarlægð milli tveggja herbergja svo ekki þurfi að keyra sjúklinga marga kílómetra. En byggingin er lárétt vegna þess að það er flugvöllur nálægt. Það er ekki hægt að byggja húsið upp í himininn af því það er flugvöllur þarna.

Ég vil því að hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar skoði nú alla þessa þætti sérstaklega. Svo er verið að lappa þarna upp á gamla steypu. Það hefur aldrei gefist vel að lappa upp á gamla steypu vegna þess að gömul steypa aðlagar sig ekki nýjum hugmyndum um sjúkrahúsrekstur og bindur menn óþarflega og kostar óhemjumikið í viðhaldi.

Ég vil spyrja að því í þessari umræðu hvort framtíðarleiga verði ekki örugglega færð til gjalda hjá ríkissjóði, þ.e. að það auki halla ríkissjóðs þegar þetta verður gert, hvort það sé ekki alveg öruggt, þannig að við séum ekki að plata litlu börnin sem borga skattana eftir 30–40 ár.