138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fór nú yfir það í framsöguræðu minni hvernig þessu verður fyrir komið og auk þess getur hv. þingnefnd og Alþingi farið rækilega yfir það. En í grófum dráttum er þetta þannig að þetta er ekki fært í efnahagsreikning ríkisins sem fjárfesting, þetta kemur ekki við fjárfestingarhreyfingar ríkisins, en hins vegar mun skuldbindingin liggja fyrir og verður sýnileg um leið og samningur er gerður. Það er ekki verið að fela eitt eða neitt í þessum efnum. Þvert á móti verður það allt aðgengilegt mönnum.

Ég held að menn eigi ekki að líkja þessu saman við ákvörðun um einhverja framkvæmd sem menn eru að velta fyrir sér að fara í á einhverjum fjárfestingarforsendum og þeir eigi val um að gera eða gera ekki. Þetta er ósköp einfaldlega þannig að við verðum að ráðast í löngu tímabærar úrbætur varðandi húsnæði fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús. Það verður að taka stefnuna í þeim efnum og hefjast handa því að sá kostur að gera ekki neitt, eins og hér hefur verið þaulræddur, er örugglega dýrastur og verstur. Þess vegna er það verkefni fyrir okkur fyrst og fremst að meta það hvort hér hafi verið fundin sú leið og sú úrlausn sem sé skynsamlegust við núverandi aðstæður. Ég tel að svo sé.

Ég tel líka að að mörgu leyti komi það sér vel að fá þessa stóru framkvæmd á næstu árum og það sé rétti tíminn til að gera þetta núna. Það kemur sér vel í sambandi við atvinnu og umsvif á byggingartíma að sjálfsögðu. Þetta er stór og mikil framkvæmd, umtalsverð fjárfesting. Það má ekki dragast mikið lengur en sem framkvæmdatímanum nemur að fá fram úrlausn mála vegna þess hversu ástandið er orðið alvarlegt á mörgum stöðum spítalans þar sem húsnæði er orðið mjög lélegt, jafnvel ónothæft, heilsuspillandi og fullnægir ekki á nokkurn hátt kröfum tímans, hvað þá framtíðarinnar. Ég held að við séum í raun og veru á réttum tíma með þetta mál og hér sé fundin skynsamleg lausn sem muni verða vonandi öllum aðilum hagstæð og þá er vel. Að sjálfsögðu er rétt og skylt að fara rækilega ofan í forsendur málsins og það er tími til þess akkúrat (Forseti hringir.) núna.