138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:28]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki valkostur að gera ekki neitt, segja hv. þingmenn og hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni um þetta mál. Ég held að flestir séu sammála um það í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið á mörgum undanförnum árum um húsnæði Landspítalans að það sé ekki valkostur að gera ekki neitt, þó ekki væri nema að létta af þeirri óvissu sem starfsfólkið innan þeirrar ágætu stofnunar hefur búið við gagnvart svörum ríkisins um hvað taki við í þessu máli.

Síðasti hv. ræðumaður nefndi það áðan að hefja ætti byggingu sem fyrst og taka fyrsta áfangann strax. Það kann vel að vera að það verði niðurstaðan en áður en ég kem að þeim þáttum hefði ég viljað hafa nokkur orð um það frumvarp sem liggur hér fyrir og þann búnað sem málið er í. Ég gerði í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra áðan ýmsar athugasemdir varðandi frágang þessa máls. Í mínum huga er það óviðunandi, eins og þetta er búið í hendur þingsins þegar málið er lagt fram, að við séum að fá hér frumvarp sem gerir ráð fyrir því að tilteknu félagsformi séu lagðar í hendur fjárhæðir eða eignir ríkisins í formi lóðarréttinda án þess að þær séu tilgreindar né heldur hvert áætlað verðmæti þeirra er. Eins og frumvarpið ber með sér er gert ráð fyrir að einungis sé um að ræða 20 millj. kr. framlag ríkissjóðs inn í þetta verkefni en til viðbótar eru félaginu afhent tiltekin lóðarréttindi eins og segir í athugasemdum við frumvarpið um 1. gr., með leyfi forseta:

„Í 2. mgr. er fjármálaráðherra heimilað að leggja félaginu til lóðarréttindi við Hringbraut sem félagið mun svo nýta sér til að fjármagna rekstur sinn, svo sem kostnað við frumhönnun.“

Engin frekari greining er á þessu í þeim athugasemdum sem hér liggja fyrir.

Enn fremur nefndi ég áðan að það skorti í greinargerð með þessu frumvarpi þó ekki væri nema drög að samþykktum fyrir þetta félag, því að í 2. gr. er tilgreint að tilgangi félagsins skuli nánar lýst í samþykktum þess. Mér er fullljóst að frumvarpið ber með sér nokkuð vel í hvaða tilgangi þetta félag er stofnað en engu að síður, þó ekki væri nema formsins vegna, ber að láta drög að samþykktum fylgja frumvarpinu.

Í athugasemdum og greinargerð með frumvarpinu kemur ágætlega fram að það er komið í hendur þingsins í þessu formi. Ég vil ítreka það að ég fagna því að þetta sé sett fram með þessum hætti, í stað þess að nýta hið umdeilda í áraraðir 6. gr. ákvæði í fjárlögum. Þetta er gert m.a. að fenginni umsögn og tillögugerð Ríkisendurskoðunar sem mat það, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þegar hann gerði grein fyrir frumvarpinu, ekki fullnægjandi að svona stórt verkefni væri vistað innan 6. gr. heimildar fjárlaganna.

Hins vegar segir í greinargerðinni að með þessu verkefni, sem ég kýs að kalla þrátt fyrir allt einkaframkvæmd á þessu sviði, með þessu verklagi verði tryggt að ríkið eigi að geta metið kostnaðinn heildstætt áður en það skuldbindur sig til greiðslu fjár vegna þess og eigi þar af leiðandi möguleika á að snúa frá hugmyndum ef kostnaðurinn muni reynast of hár. Ég vil undirstrika það hér að ég er þeirrar skoðunar að þegar þetta verkefni verður hafið verði ekki aftur snúið, ég held að um það sé ekki að ræða. Þegar við erum komin af stað í ferðina og sú stefnumörkun sem felst í því leiði það af sér að af þeirri braut verði ekki farið, við þurfum að ganga þann veg til enda hvernig svo sem hann verður. Það er kannski það sem mér finnst bera með sér í þessu máli að við höfum ekki séð til enda í því, sérstaklega að teknu tilliti til allra þátta sem lúta að kostnaði.

Einstaklingur sem ég ræddi þetta við í dag líkti þessu við það að við værum að hefja okkur til flugs án þess að vita í rauninni hvar lendingarstaðurinn væri, við værum á flugi en vissum ekki hvar við ættum að enda. Hvers vegna orða ég þetta svona hér? Jú, mér finnst þetta bera brag af því að við séum með opinn víxil. Það vantar í rauninni alla greiningu á framkvæmdakostnaði og hvernig sá kostnaður muni dreifast á næstu árum. Við höfum grófa mynd af því frá þessu ágæta norska fyrirtæki, að því að sagt er, sem kom að þessu verki eins og segir í greinargerðinni eftir fall bankanna. Ekki er liðinn langur tími frá falli bankanna, ég held ég geti verið þokkalega sammála um það. Hefur sá tími dugað okkur til að vanda vel til þess að greina áhættuna varðandi fjárskuldbindingu ríkisins vegna þessa verkefnis? Hefur þetta dugað til að „skala“, eins og menn segja, verkefnið niður um helming, frá því að vera áætlun um byggingu húsnæðis upp á um 130 þúsund fermetra, niður í það að hér er gert ráð fyrir helmingi af þeim kostnaði, eða um 50–60 þúsund fermetra? Ég tel svo ekki vera og athugasemdir mínar lúta einnig að því að fjármögnun er að stórum hluta utan efnahags ríkissjóðs. Maður spyr sig hvaða mynd ríkisreikningurinn gefi af rekstri og starfsemi ríkisins ef stórframkvæmdum sem þessum, þar sem um er að ræða marga tugi milljóna, sé haldið utan reiknings.

Það er vissulega til bóta að setja svona verkefni í ákveðið félag ef við ætlum að fara þessa leið. En ég bendi jafnframt á það í sambandi við það, þó svo það sé kostur að hafa eftirlit með framkvæmdunum í svona félagi, að þá er ekki um sama aðgengi Alþingis að upplýsingum eða ráðuneyta að upplýsingum úr slíkum stofnunum að ræða eins og við vildum að væri. Þar af leiðandi held ég að sé mjög eðlilegt að reyna í vinnslu fjárlaganefndar að skilgreina að nýju það eftirlit sem Alþingi er ætlað og fjárlaganefnd með þeirri framkvæmd sem ákveðið verður að ráðast í.

Ég vil segja það hér að þó svo áætlaður kostnaður við þetta verkefni sé metinn einhvers staðar um 51 milljarður, liggur það fyrir að hönnun og þeim grundvallarþáttum er ekki lokið. Þetta er gróft mat á kostnaði. Stofnkostnaður er áætlaður um 33 milljarðar og húsnæði eða húsbúnaður og tæki um 7 milljarðar og vegna endurbóta á eldra húsnæði sem eru 63 þúsund fermetrar er áætlaðir um 11 milljarðar. Þegar maður skoðar þetta í fermetraverði lætur nærri að um sé að ræða um 740 þús. kr. á fermetra. Ég geri alveg ráð fyrir því að sá kostnaður geti dugað að því gefnu að þær hugmyndir sem hinu norska ráðgjafarfyrirtæki hafa verið gefnar varðandi forsendur gangi upp. Um það veit ég ekki neitt og það veit í rauninni enginn maður en ég geri þó ráð fyrir því að menn muni reyna að stefna að því að halda sig innan þeirra viðmiða sem þarna eru, en við höfum reynslu af sambærilegum verkum sem hafa farið fram úr kostnaðarheimildum.

Engu að síður er vert að ítreka það hér að öll undirbúningsvinna að þessu verki í umsögn þessa norska ráðgjafarfyrirtækis, fær góða umsögn og það staðfestir það og gefur það mat að við þessa framkvæmd muni sparast verulegir fjármunir í rekstrarkostnaði þess heilbrigðiskerfis sem við ræðum hér. Raunar er málið lagt upp í þessu frumvarpi með þeim hætti að sá sparnaður og sú hagræðing sem á að nást við þessa framkvæmd muni standa undir leigugreiðslum sem Landspítalinn innti af hendi til lífeyrissjóðanna væntanlega, ef þeir fengju þetta útboð. Ég skal játa það hér að við höfum ekki séð forsendurnar fyrir þessum útreikningum. Ég held að það sé lágmarkskrafa til þeirra sem um þessi mál sýsla að farið sé mjög ítarlega í gegnum það.

Þetta er lykilatriðið í þessu máli öllu, þ.e. að það er gert ráð fyrir því við málsmeðferðina að einungis sé um að ræða 20 millj. kr. framlag beint af fjárlögum inn í þetta verkefni, að öðru leyti muni hagræðingin standa undir sér með þeim hætti að standa undir leigugreiðslum. Þetta er skiljanleg framsetning, ekki síst í ljósi þess að við rekum ríkissjóð með 100 milljarða halla. Og þá spyr maður sig: Hvað gerist ef forsendurnar fyrir þessu bresta, ef framkvæmdin og það sem gert verður tekur til sín meira fé en hún í rauninni aflar? Hvernig ætla menn að bregðast við því? Hér hefur verið nefnt að þetta sé lykilatriði og ekki skal ég draga úr því varðandi það að auka við atvinnu og bæta lífskjör fólks á því svæði sem tengist fyrirhuguðum framkvæmdum. Það er gott og vel. En ef forsendurnar fyrir því að hagræðingin standi ekki undir þeim kostnaði sem af þessu leiðir, ef þær bregðast, erum við í rauninni að auka vanda ríkissjóðs til lengri tíma og þetta er þá ekki liður í öðru en að bæta við þann 100 milljarða halla eða þann vanda sem þar er við að glíma ef forsendur ganga eitthvað úr skaftinu.

Ég hefði álitið að í sambandi við svona stóra framkvæmd væri eðlilegt fyrir þá sem leggja málið fram að reyna að meta með ákveðnum hætti hvernig og hvaða forsendur eigi að liggja fyrir þessu. Nú er það alveg skýrt að við horfum upp á það og heyrum af ákveðnum vandræðum í heilbrigðisþjónustunni vegna samdráttar og hvaða mynd hafa menn þá af framtíðarfyrirkomulagi heilbrigðisþjónustu í landinu? Þarf ekki að vega það og meta?

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi hér og varpaði upp spurningu varðandi gatnagerð sem hæstv. fjármálaráðherra svaraði þokkalega vel en engu að síður er þetta ein forsenda sem þarf að skoða.

Ég spyr einnig hvaða breytingar eru fyrirsjáanlegar á komandi árum innan heilbrigðisþjónustunnar í samanburði við önnur lönd. Eru fyrirsjáanlegar einhverjar breytingar í því um líku o.s.frv.? Þetta er atriði sem ég get ekki svarað. Ég hef ekki sérfræðiþekkingu á þessu sviði en vænti þess að þetta verði skoðað.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefndi líka áðan að töluvert væri um ónotaðar skurðstofur hér og þar á höfuðborgarsvæðinu, suður á Reykjanesi og fyrir austan fjall o.s.frv. Við hljótum þá líka með sama hætti að leggja inn í þetta sama mat spurninguna um það hvort hægt sé að koma þjónustunni fyrir með öðrum hætti en við gerum í dag án þess að byggt sé við þá starfsemi sem þarna er um að ræða. Við höfum líka upplýsingar um það innan úr félagsmálageiranum að þar hafi menn verið tilbúnir með ákveðna áætlun um uppbyggingu eða starfsemi í félagsþjónustu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, sem menn séu búnir að leggja til hliðar núna vegna þess að aðstæður eru gjörbreyttar og þá hlýtur það með einhverjum hætti að kallast á við heilbrigðisþjónustuna og takast á við hana um þau verkefni sem bíða.

Það sem ég er að nálgast hér og reyna að segja er að ég tel að áður en við förum út í mikla og stóra og fjárfreka framkvæmd eins og hér um ræðir, þurfum við að vinna frekari greiningu á þeim þörfum sem henni er ætlað að svara. Við þurfum að leggja mat á þörfina fyrir þetta stóra verk og bera saman við þá möguleika sem fyrir hendi eru. Við þurfum að meta og áætla kostnað samfélagsins í heild og þann ábata sem af þessari framkvæmd á að verða fyrir þjóðfélagið allt og svo þurfum við að greina þá niðurstöðu sem þarna kemur fram. Að þeirri greiningu lokinni tel ég að við verðum fyrst í stakk búin til að leggja mat á það hvort við eigum að stíga þetta skref eða ekki. Ég vænti þess svo sannarlega að fjárlaganefnd taki til hendinni við það verkefni, ekki það að hana skorti verkefni að mati sumra, við getum lengi á okkur blómum bætt sem störfum innan fjárlaganefndar, við erum í þokkalegri þjálfun við að takast á við mikil og vandasöm verkefni og þetta er eitt þeirra sem væntanlega bíða okkar að fást við.