138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[17:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Um leið og ég fagna því að þetta mál er komið fram verð ég að segja og taka undir með mörgum þingmönnum sem hér hafa talað að þegar maður les frumvarpið og athugasemdirnar með því fær maður á tilfinninguna að ekki sé vandað til verksins. Vegna þess hversu vel ég þekki þetta mál er mér algjörlega fyrirmunað að skilja af hverju ekki er rétt farið með í þessum athugasemdum. Ef það er eitthvert markmið hjá núverandi ríkisstjórn að þurrka út allt sem áður var gert þá er það markmið í sjálfu sér og mér svo sem alveg að meinalausu þó að menn taki út það sem var unnið í minni tíð, sem m.a. var það að fela Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans, að vinna þetta mál. En það er búið að reikna þetta út fyrir lifandis löngu síðan.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kom með mjög málefnalegar ábendingar. Af hverju eru þær ekki í athugasemdunum eftir allan þennan tíma? Ég setti þetta í hendurnar á forstjóra Landspítalans eftir bankahrunið. Þá hugsaði ég um öll heilbrigðismálin út frá þeirri forsendu hvernig hægt væri að halda þjónustunni úti með minni fjármunum, þar á meðal hvernig hægt væri að halda áfram með þetta verkefni. Af hverju? Vegna þess að mjög skýr rök eru fyrir því. Ef við förum ekki í þetta verkefni þurfum við að gera eitthvað annað vegna þess að núverandi húsnæði er gamalt og úrelt. Það væri líka afskaplega gott ef við gætum gert þetta núna. Þetta er mannaflsfrek framkvæmd en það er í rauninni bara bónus. Aðalatriðið er að með því að sameina þetta á einn stað þá sparast rekstrarkostnaður. Með því að fara þá leið sem ég lagði upp með og fól Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans, að vinna með þá nýtum við reynslu vina okkar Norðmanna sem hafa byggt sambærilega spítala. Þeir aðilar sem komu að þessu verkefni komu bara að þessum þætti og þeim var t.d. falið að skoða hvað kostar að gera ekki neitt, sem er ekki inni í þessu. Hvað sparast við að fara þessa leið í staðinn fyrir að gera ekki neitt? Ég á þetta á glærum, virðulegi forseti. Ég skil ekki af hverju menn vanda sig ekki almennilega og setja upplýsingarnar inn.

Á bls. 4 stendur, með leyfi forseta:

„Það er miklu dýrara að „gera ekkert“ en að ráðast í framkvæmdir.“

Gera ekkert. Hvers konar grín er þetta? Það liggur alveg fyrir nema einhverjir nýir útreikningar komi til. Þessir útreikningar voru gerðir fyrir rúmu ári síðan. Ef ávöxtunarkrafan er 6%, þá hagnast menn um 8 milljarða. Ef hún er 4%, sem menn gera svona frekar ráð fyrir, verður það 19 milljarða sparnaður. Ef ávöxtunarkrafan er 3%, þá eru það 27 milljarðar. Þetta liggur allt fyrir. Þetta hefur legið fyrir allan þennan tíma. Við höfum misst dýrmætan tíma sem við hefðum getað nýtt til að fara almennilega yfir þetta.

Við höfum verið að ræða hrunskýrsluna. Þar er mikið lagt upp úr faglegum vinnubrögðum, það þurfi að bæta þau og vinna hluti betur. Ég get ekki séð af hverju menn eru að rembast við að kalla hlutina einhverjum öðrum nöfnum. Núna eru menn væntanlega af einhverjum pólitískum ástæðum að reyna að búa til nýtt hugtak, nýr Landspítali í samstarfsframkvæmd. Ég vek athygli á því að þetta er neðst á bls. 4. Með leyfi forseta les ég upp úr þessu:

„Samstarf við lífeyrissjóði um verkefnið kallar á aðra nálgun við verkefnisstjórn og útboð en í hefðbundnum opinberum verkefnum. Almennt hefur aðferðafræði þar sem um samstarf af þessu tagi hefur verið að ræða gengið undir nafninu einkaframkvæmd opinberra verkefna.“

Hæstv. fjármálaráðherra, þingmaður og formaður Vinstri grænna, er að fara með þetta verkefni í einkaframkvæmd og hæstv. ráðherra á bara að segja það. Ég vona að ekki hafi farið langur tími hjá embættismönnum í að finna nýtt hugtak yfir einkaframkvæmd opinberra verkefna, en það er það sem þetta er. Ég veit ekki af hverju menn eyða dýrmætum tíma í svona æfingar.

Virðulegur forseti. Ég heyri að nú fer um hæstv. fjármálaráðherra, ég geri ráð fyrir því að hann komi hér í andsvar ef honum mislíkar eitthvað sem ég segi eða spyrji nánar út í ef hann þarf frekari útskýringar. Ég er ekki að gagnrýna það að hæstv. ráðherra fari með spítalann í einkaframkvæmd, ég lít svo á að menn hafi fundið að það væri engin önnur leið. Það var ekki hugmyndin, menn ætluðu ekki að fara þá leið en aðstæður breyttust eins og við þekkjum og þess vegna fer þetta í einkaframkvæmd. Við eigum ekki að tala um þetta neitt öðruvísi.

Stóra einstaka málið er að við þurfum nýjan spítala. Ef við ætlum ekki að fara þessa leið þá þurfum við að gera eitthvað annað. Allir sem skoða aðstöðu í húsum Landspítalans, sem eru nú 17 eða 18 talsins, geta séð að sumt er komið langt yfir síðasta söludag, m.a. vegna þess að ákveðið var að reisa nýja byggingu og því hafa menn haldið að sér höndum í viðhaldi og það kemur auðvitað niður á starfseminni með einum eða öðrum hætti.

Í öðru lagi mun þetta kalla á rekstrarsparnað. Hvernig? Þegar deildir eru sameinaðar á einn stað sparast kostnaður eins og vaktakostnaður og annað slíkt. T.d. er alveg skýrt að ef unnið er á færri skurðstofum þarf færri til að vinna sömu verkin. Við Íslendingar erum í þeirri stöðu að við höfum aðstöðu og mannskap til að gera miklu meira en við gerum, við gætum hugsanlega þjónustað helmingi fleiri sjúklinga. Það þarf alltaf ákveðna lágmarksuppbyggingu en þó að okkur fjölgaði um nokkur hundruð þúsund þá þyrfti örugglega ekki að bæta mörg svið heilbrigðisþjónustunnar mikið. M.a. þess vegna eru mikil tækifæri í því að flytja inn sjúklinga og það er afskaplega dapurlegt að ríkisstjórnin hafi staðið í vegi fyrir því, því að þau tækifæri hefðu getað skilað heilbrigðisstarfsfólki störfum og skapað tekjur hér á landi. En það er önnur saga.

Síðan er auðvitað afskaplega gott við þessar aðstæður að fara í verkefni sem skila atvinnu til fólksins í landinu, sérstaklega á þeim sviðum þar sem atvinnuleysi er og lítið um verkefni.

Þess vegna fagna ég því að þetta sé komið fram. Ég veit ekki hvort Vinstri grænir hafa þurft að brjóta odd af oflæti sínu til að fara í einkaframkvæmd en ef svo er var það bara gott hjá því stjórnmálaafli, það var gott af því að við eigum aldrei að festa okkur í pólitískum kreddum, allra síst núna. Nú þurfum við að leysa þetta verkefni og við þurfum að finna leið til þess.

Mér hefur hins vegar fundist málið ganga allt of hægt og það hafa ekki verið nein málefnaleg rök fyrir því að vinna þetta ekki hraðar en raun ber vitni. Nú fáum við þetta inn í þingið ásamt fjörutíu öðrum málum frá ríkisstjórninni og ég held að það séu fjórtán þingdagar eftir.

Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ræddu um áhættuna af þessu verkefni, sem er mikil. Við þurfum að vanda okkur alveg gríðarlega mikið. Margoft hefur komið fyrir að kostnaður við opinberar byggingar hefur farið langt fram úr upphaflegum áætlunum og einhvern veginn hefur sá reikningur alltaf endað á skattgreiðendum. Þess vegna er mjög mikilvægt að við vöndum til verksins. Þetta var tilbúið fyrir rúmu ári síðan. Af hverju er beðið þar til fjórtán dagar eru til þingloka? Fjórtán dagar.

Ég veit alveg að fjárlaganefndin vinnur vel. Ég veit alveg að hún getur unnið hratt. En ekkert mælir með því að við séum að búa okkur til slíka tímapressu, nákvæmlega ekki neitt. Ég held að þetta mál sé þess eðlis að flestir séu sammála um það þegar þeir sjá gögnin. Ég tel svo vera. Það var óskynsamlegt að setja ekki meira af gögnum og upplýsingum inn í frumvarpið, einfaldlega vegna þess að þó svo að nefndin geti kallað ýmislegt til, þá er það nú sem betur fer þannig að ýmsir aðilar úti í þjóðfélaginu hafa áhuga á málinu og geta kallað eftir frumvarpinu og athugasemdum með því á netinu, það er tiltölulega lítið mál. Þeir hafa rétt á því að fá að sjá þá vinnu sem búið er að leggja fram.

Nefndin mun örugglega kalla eftir gögnum sem hefðu átt að vera þarna inni en mál af þessari stærðargráðu eru alltaf þannig að okkur er falin alveg gríðarleg ábyrgð að ganga vel frá þessu. Við þurfum að vinna ýmislegt fleira en þetta ágæta mál. Annars mun hv. þm. Kristján Þór Júlíusson áminna mig ef þetta verður ekki unnið vel. Slík bréf hafa nú verið send af minna tilefni á síðustu dögum.

Að öllu gamni slepptu þá fagna ég því að þetta mál sé komið fram. Við breytum ekki því sem á undan er gengið. Ég gagnrýni þetta vegna þess að mér finnst frumvarpið vera vanbúið að upplýsingum og forsögu málsins. Ég held að mjög mikilvægt sé að fólk sé upplýst um þetta mál. Það er markmið í sjálfu sér að hver einasti Íslendingur, í það minnsta flestir, og þeir sem hafa áhuga á því, viti af hverju er verið að fara í þetta verkefni og hvaða forsendur liggja að baki. Við erum löngu komin fram yfir þann tímapunkt, virðulegi forseti, að hægt sé að ganga þannig frá málum að nóg sé að segja að gott fólk hafi komið að undirbúningnum. Við getum treyst því. Það er ástæða fyrir því að fólk vill fá að vita um hluti eins og þessa og á rétt á því.

Ég hef líka orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvað þetta mál hefur gengið hægt og hvað þingmenn hafa skamman tíma til að vinna þetta, í það minnsta á þessu vorþingi. Kannski má vera að við geymum frumvarpið yfir sumarið og tökum það upp á haustþingi. Auðvitað er það valkostur og þá er hægt að vinna að þessu í sumar en engin málefnaleg rök eru fyrir því að koma með þetta mál svona seint. Og það eru engin málefnaleg rök fyrir því að hafa athugasemdir með frumvarpinu eins rýrar og raun ber vitni, því það er markmið í sjálfu sér, virðulegi forseti, að fólk viti af hverju er verið að fara í þetta verkefni og að fólk skilji hvað liggur til grundvallar. Það gerist ekki nema við veitum upplýsingar.