138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur ekki heyrt hvað ég sagði eða misskilið það. Það er enginn að tala um að þetta mál eitt og sér tefji málin í heild sinni, ég efast um að einhver hafi haldið því fram. Gagnrýnin var þessi: Frumvarpið er mjög seint fram komið. Það er mjög stutt eftir af þinginu og lítill tími til að fara yfir þetta mál. Málið var tilbúið til þess að fara í forval snemma árs 2009 en núna fyrst fóru menn í það. Ef menn voru búnir að taka ákvörðun um að fara í þetta áttu menn ekki að bíða með að fara í forvalið vegna þess að á meðan menn biðu lagðist algjört alkul á markaðinn fyrir það fólk sem sækir um að komast í þetta verkefni, arkitekta, verkfræðinga og aðra. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá þeim aðilum sem voru í miklu sambandi við stjórnmálamenn, sérstaklega fyrir síðustu kosningar, hefur margt yngra fólk þurft að sækja sér störf jafnvel í öðrum löndum.

Ég hvet líka hæstv. ráðherra til þess að ganga í og klára þessa samninga við lífeyrissjóðina. Það hefur verið nægur tími til þess en ekki hafa borist neinar fregnir um að það hafi verið gert. Aftur á móti hafa komið fregnir frá lífeyrissjóðum um að þeim hafi fundist hægt ganga í þessu eins og öðrum sambærilegum málum.

Gagnrýnin var sú hversu málið er seint fram komið og sömuleiðis það sem snýr að undirbúningnum, hvað menn hafa beðið lengi með hann. Meðan menn hafa beðið höfum við tapað dýrmætum tíma og störfum fyrir fólkið í landinu.