138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[18:09]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kem upp í andsvar við hæstv. fjármálaráðherra eru þau orð hans að verið sé að setja tiltölulega einfaldan lagaramma utan um það verkefni sem hér liggur fyrir. Í mínum huga er málið miklu flóknara en svo því að í umsögn og athugasemdum við frumvarpið kemur fram, með leyfi forseta:

„Ekki sé eingöngu verið að skuldbinda ríkið til langs tíma, heldur jafnframt talið að verið sé að ráðstafa eignum og kveða á um fyrirkomulag framkvæmda. Það er með öðrum orðum að mati Ríkisendurskoðunar ekki fullnægjandi, í ljósi umfangs verkefnisins og þeirra skuldbindinga sem ríkið gengst undir, að afgreiða þetta einungis með heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga.“

Um þetta snýst málið. Hvaða heimildir mun þetta væntanlega opinbera félag hafa til þess að skuldbinda ríkissjóðinn? Væntanlega verða þær tiltölulega rúmar. Áætlanir um hvernig kostnaði verði hagað eiga að liggja fyrir upp úr miðju þessu ári en ég hef sagt í umræðu um þetta efni að ég tel fulla ástæðu til þess að hafa fyrirvara á þeim kostnaði sem hér er tilgreindur, einfaldlega vegna þess hve verkefnið er lítt mótað í dag. Þó að unnin hafi verið ágætisvinna miðaði hún við helmingi stærri framkvæmd en hér er. Þrátt fyrir ágæti þessa norska ráðgjafarfyrirtækis dreg ég í efa að því hafi auðnast að vinna fullnægjandi kostnaðaráætlanir á þeim skamma tíma sem það hafði til þess að leggja grunn að svo stórri ákvörðun eins og þeirri sem við stöndum frammi fyrir.