138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og tryggingagjald.

591. mál
[18:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, auk breytinga á lögum um tryggingagjald.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til í frumvarpsformi eru í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og fyrirheit ríkisstjórna, bæði fyrri ríkisstjórnar í tengslum við gerð kjarasamninga á öndverðu ári 2008 eða fyrri hluta árs 2008 sem núverandi ríkisstjórn endurnýjaði eða gaf sömuleiðis við gerð stöðugleikasáttmálans 25. júní 2009 og í tengslum við framlengingu kjarasamninga þá. Þetta varðar svonefndan Starfsendurhæfingarsjóð sem aðilar vinnumarkaðarins í samstarfi við stjórnvöld hafa samið um að koma á fót og er sjóðnum ætlað að veita þjónustu og úrræði fyrir starfsmenn sem slasast eða veikjast til lengri tíma þannig að vinnugeta skerðist. Fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf og eru tengd samkomulagi þessu eru í fyrsta lagi að lögfesta skuli skyldu launagreiðenda til greiðslu 0,13% iðgjalds til Starfsendurhæfingarsjóðs, samhliða skyldu launþega til að tryggja sér rétt til starfsendurhæfingar frá 16 til 70 ára aldurs. Í öðru lagi að lögfest verði framlag til Starfsendurhæfingarsjóðs frá lífeyrissjóðum er nemi sömuleiðis 0,13% af iðgjaldsstofni frá og með 1. júlí á þessu ári. Í þriðja lagi að lífeyrissjóður leggi í fyllingu tímans einnig til 0,13% framlag af þessum iðgjaldsstofni til Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. júlí 2013, sem hér er lagt til að verði reiknað sem hlutdeild í tekjum af tryggingagjaldi.

Stór hluti launagreiðenda, að ríkinu meðtöldu, er þegar farinn að greiða 0,13% iðgjald til Starfsendurhæfingarsjóðs en verði frumvarpið að lögum mun sú skylda ná til vinnumarkaðarins alls. Við þetta bætist jafnhátt iðgjald frá lífeyrissjóðunum frá og með 1. júlí nk. Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum er gert ráð fyrir að framlag ríkisins til Starfsendurhæfingarsjóðs verði, eins og áður sagði, 0,13% af tryggingagjaldsstofni frá og með miðju ári 2013 en fram til þess tíma er unnið samkvæmt samkomulagi um að ríkið greiði 150 millj. kr. framlag til sjóðsins á árinu 2010, 250 millj. kr. framlag árið 2011 og 350 millj. kr. framlag árið 2012, eða samtals 750 millj. kr. á þessum árum Gera má ráð fyrir að árlegar tekjur Starfsendurhæfingarsjóðs verði nálægt 3 milljörðum kr. þegar greiðslur frá öllum aðilum verða að fullu komnar til framkvæmda 1. júlí 2013.

Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir, og ég vek athygli á því ákvæði sem er mikilvægt í ákvæði til bráðabirgða, að fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra skuli koma á fót samráðsnefnd aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að meta jafnóðum árangur og framhald á starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs og tryggja samhæfingu starfseminnar við annað endurhæfingarstarf. Nefndin skal jafnframt leggja fram tillögur að skýrum lagaramma varðandi ábyrgð og eftirlit með Starfsendurhæfingarsjóðnum og skal því verkefni vera lokið 1. október 2010.

Það er mikilvægt, ef farið verður út í uppbyggingu þessa sjóðs með svo miklum fjármunum sem hér er gert ráð fyrir á komandi árum, að þar verði vandað til verka. Það eru vissulega skiptar skoðanir um hvort hér sé að öllu leyti valin sú leið sem vænlegust sé, það væri ástæðulaust og er ástæðulaust að draga dul á það. Menn hafa spurt ýmissa spurninga um samstarf og samþættingu þessa þáttar endurhæfingarstarfsins sem er vinnumarkaðstengdara við það endurhæfingarstarf sem hið opinbera hefur með höndum eða unnið er annars staðar að og ég tel miklu skipta, eigi vel til að takast og sæmileg sátt að nást um þetta mál, að þar takist mjög vel til við samhæfingu alla.

Enginn deilir um þörfina og hún er mikil svo maður tali nú um á tímum mikils atvinnuleysis að allt sé gert sem hægt er til að endurmennta, endurþjálfa og endurhæfa starfsfólk, koma í veg fyrir að menn bíði varanlegan skaða af atvinnuleysi og/eða því að hafa tímabundið orðið ófærir á vinnumarkaði þannig að virkni þeirra haldist og endurhæfing gangi vel og menn geti orðið fullgildir þátttakendur í vinnumarkaðnum á nýjan leik. Hugsunin sem hér liggur að baki er því góð og ég deili henni alveg með þeim sem barist hafa fyrir framgangi þessa máls þó að ég hafi á köflum verið í hópi efasemdarmanna um viss fyrirkomulagsatriði sem hér eiga við. En um þetta var samið og hér eru efnd þau loforð ríkisstjórna, bæði í raun og veru fyrrverandi og núverandi, að standa að uppbyggingunni á þennan hátt eða skapa lagaforsendur fyrir henni í samræmi við það samkomulag sem gert hefur verið á vinnumarkaði og ég fel svo hv. þingnefnd, efnahags- og skattanefnd, málið til fósturs ef Alþingi fellst á þá tillögu mína að þangað gangi það að lokinni 1. umr.