138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og tryggingagjald.

591. mál
[18:24]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er gagnmerkt mál. Þannig er mál með vexti að þegar fólk dettur út af vinnumarkaði, fer á atvinnuleysisbætur og annað slíkt er stutt í örorkuna. Á árum áður gerði ég rannsókn með Sigurði Thorlacius, sem birtist í Læknablaðinu , sem sýndi fram á það að eftir níu mánuði eru orðnar ansi miklar líkur á því að fólk lendi í örorku. Það er því allt til þess vinnandi að reyna að koma fólki sem hefur af einhverjum ástæðum dottið út af vinnumarkaði aftur þar inn, hvort sem það er út af einhverju áfalli eða einfaldlega út af atvinnuleysi.

Íslendingar búa svo vel að vinnumarkaðsþátttaka á Íslandi er sú hæsta innan OECD og kostnaður vegna snemmtöku lífeyris er þar af leiðandi sá minnsti á Íslandi af öllum ríkjum OECD. Mestur er hann á Ítalíu og það hefur leitt til gríðarlega mikils kostnaðar fyrir ríkið eða þjóðfélagið. Að hafa ónýtta framleiðslu, getum við sagt, með því að fólk sé ekki úti á vinnumarkaði er dýrt fyrir þjóðfélagið og það kemur niður á velferð allra þjóðfélagsþegna, þ.e. efnahagslegri velferð. Þetta myndarlega átak í að koma starfsmenntunar- eða starfsendurhæfingarmálum í gott horf er því tímabært og mjög gott.

Rannsóknir sýna einnig að lífsgæði þeirra sem fara í gegnum starfsendurmenntunarprógramm og komast aftur út á vinnumarkað batna gríðarlega mikið við það. Það er ekki bara hægt að mæla þetta í krónum og aurum fyrir einstaklinginn sjálfan og þjóðfélagið í heild sinni heldur er hægt að mæla þetta í einhvers konar lífsgæðum. Þeim sem hafa eitthvað til að vakna til á morgnana líður betur en þeim sem hafa ekkert til að vakna til, getum við sagt.

Sá böggull fylgir skammrifi að þetta kostar náttúrlega allt saman og nú um stundir eru í kringum 60% af fyrirtækjum, þ.e. vinnumarkaðnum, sem þegar borga þetta gjald og það skilur eftir í kringum 40% þannig að að meðaltali er þetta þá álag upp á um það bil hálft prósent í viðbót á atvinnulífið og allt álag af þessum toga eykur kostnað við að ráða starfsmenn, sem þýðir það að að einhverju leyti getur þetta líka komið niður á því að fyrirtæki þurfi eitthvað að hagræða til að standa undir þessum gjöldum og annað slíkt en það er einungis á jaðrinum held ég í þessu tilfelli, þetta eru ekki það háar upphæðir. Mér reiknast til að það geti verið um nokkur hundruð milljónir á ári sem bætast í þennan pott. Ég tel að það sé, eins og ég hef rakið hérna, vel réttlætanlegt í ljósi þess hversu mikils ábata þetta merka framtak getur leitt til.

Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta neitt miklu lengra. Það er gaman að geta glatt fjármálaráðherra með því að ég skuli ekki alltaf vera neikvæður á það sem hann ber fram þannig að ég segi þetta bara gott.