138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta yfirferð á þessum tveimur samningum. Það hefur komið fram og var lesið nú rétt áðan að skrifað var undir þessa samninga árið 2008 og væntanlega erum við að uppfylla ákveðnar skyldur gagnvart öðrum þjóðum í EFTA með því að uppfylla þá. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra eftir alla þessa ágætu upptalningu hér á tækifærum hvort þessi samningur skipti í raun einhverju máli fyrir okkur þegar við erum byrjuð að feta okkur inn í Evrópusambandið. Hvaða þýðingu hefur þessi samningur, hæstv. ráðherra, þegar við erum komin a.m.k. hálfa leið þangað inn núna? Og hvaða þýðingu hefur hann þegar og ef — sem ég vona að sjálfsögðu að verði aldrei — við göngum inn í Evrópusambandið? Hefur þetta einhverja þýðingu þá?

Annað sem mig langar til að koma að við þetta tækifæri og hæstv. ráðherra getur eflaust upplýst mig um, hver er staðan er í viðræðum við Kína um fríverslunarsamning? Ef mig minnir rétt að eitthvert frost sé í viðræðunum, hver er ástæðan fyrir því? Hver er ástæðan fyrir því að lítið hefur þokast í viðræðum við Kína? Við vitum að sjálfsögðu öll að Kína og fleiri lönd í Asíu eru líklega einhverjir mikilvægustu markaðir á næstu árum í það minnsta. Ég spyr út frá þeirri staðreynd að þegar og ef — nú nota ég ef — við göngum inn í Evrópusambandið höfum við ekkert um það að velja að gera slíka samninga við önnur ríki. Því spyr ég hæstv ráðherra (Forseti hringir.) hver staðan á þessu sé.