138. löggjafarþing — 106. fundur,  15. apr. 2010.

fríverslunarsamningur milli Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu o.fl.

580. mál
[18:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem gleður mig alltaf við þennan hv. þingmann er að þegar grannt er skoðað þá erum við alveg sammála og höfum svipaða sýn á það hvernig hlutirnir munu þróast. Hv. þingmaður gengur meira og minna út frá því að Ísland muni ganga í Evrópusambandið. Ég tel það reyndar líka og það gleður mig að hann skuli ekki vera víðs fjarri mér í því.

Ég vil svara hv. þingmanni með eftirfarandi hætti: EFTA fylgir yfirleitt í slóð Evrópusambandsins varðandi gerð fríverslunarsamninga við ríki utan Evrópu. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ef svo vildi nú til að Ísland yrði orðið aðili að Evrópusambandinu innan mjög skamms tíma þá hefði þessi sjóferð kannski ekki mikinn tilgang. Þó hefur hún þann tilgang að við erum aðilar að EFTA og höfum skuldbundið okkur til þess að fylgja þeim eftir og vinna með þeim að samningum af þessu tagi. Ég held hins vegar ekki, og ég er viss um að hv. þingmaður er mér sammála um það, að Ísland verði komið í Evrópusambandið innan tiltölulega skamms tíma. Ég hef alltaf sagt að þær samningaviðræður verði erfiðari og langdregnari en sumir æstustu stuðningsmenn ESB hér á landi telja eða má t.d. lesa úr skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um Ísland. Þetta hefur klárlega tilgang. Við verðum að halda áfram virkni stjórnkerfis okkar og standa við samninga okkar við þau bandalög sem við erum aðilar að núna.

Að því er varðar Kína þá hef ég farið yfir það mál hér á hinu háa Alþingi. Þeir samningar hafa tekið fjögur ár minnir mig. Það hefur verið töluverð uppstytta en ekki meiri en hefur orðið í samningaviðræðum Kína við aðrar þjóðir. Það sem kannski ber helst á milli er það að Kínverjar eru ansi fastir fyrir varðandi ákvæði um t.d. (Forseti hringir.) flutning vinnuafls til Íslands.