störf þingsins.
Frú forseti. Mig langar til að ræða við tvo hv. þingmenn, Ólínu Þorvarðardóttur, varaformann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og Ögmund Jónasson.
Mig langar til að spyrja varaformann landbúnaðarnefndar hvort unnið sé að eða gerð hafi verið neyðaráætlun vegna öskufalls sem hugsanlega eyðileggur blómleg landbúnaðarhéruð þannig að búpeningur drepst, heyskapur bregst, skera þarf niður skepnur í stórum stíl eða flytja þær burt og flytja þarf mikið magn af heyi og fóðri milli héraða eða jafnvel erlendis frá með hugsanlega ófæra vegi og vélar sem ekki ganga í öskufalli. Ég tel brýnt að við sofum ekki á verðinum og þó að ég voni hið besta skulum við líka vera búin undir það versta eins og fornar sagnir kenna okkur.
Hv. þm. Ögmund Jónasson langar mig til að spyrja út í málefni LSR sem hann hefur stýrt í áratug og að auki talað oft um félagslegt jafnrétti. Hversu miklu tapaði LSR á hruninu og hvernig er stöðu hans háttað? Þarf að hækka iðgjald ríkisins til A-deildar og þá hvað mikið? Hve mikið hafa ríkið og opinberir aðilar greitt til B-deildar í gegnum tíðina og hvað er mikið ógreitt? Hvernig samræmist það félagslegu réttlæti að greiða í sumum tilfellum mjög háan óskertan lífeyri til fyrrum opinberra starfsmanna úr B-deild á meðan sjóðfélagar og lífeyrisþegar almennu lífeyrissjóðanna þurfa að horfa upp á umtalsverða skerðingu sinna réttinda og lífeyris og þurfa svo að borga með hækkuðum sköttum til hinna fyrrnefndu? Hver er ábyrgð stjórna lífeyrissjóðanna og ættum við ekki að fara að láta sjóðfélagana kjósa þá beint?