störf þingsins.
Hæstv. forseti. Stjórnarmenn í lífeyrissjóðunum eru kosnir lýðræðislegri kosningu, það eru verkalýðsfélögin og síðan atvinnurekendahliðin sem kýs þá til starfa. Varðandi þær spurningar sem beint er að mér hvað áhrærir LSR þá er ég ekki með þessar tölur á hraðbergi enda ekki öll kurl komin til grafar. Það er ekki vitað hvert áfall Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er fremur en hjá öðrum lífeyrissjóðum þegar hrunið er annars vegar.
Um LSR er það að segja að kerfið er tvískipt. Annars vegar er það B-deild lífeyrissjóðsins sem var lokað 1. janúar árið 1997. B-deildin er í reynd blanda af lífeyrissjóði og gegnumstreymiskerfi sem var notað um áratugaskeið til þess að niðurgreiða almannatryggingar, auk þess sem ríkið tók vaxtalaus lán úr þeim sjóði. Hvað A-deildina áhrærir eru 80% sjóðfélaga í LSR í þeirri deild. Hún tekur breytingum, eða lífeyrisréttindin taka breytingum samkvæmt hækkun neysluvísitölu og á árabilinu 1997 til ársloka 2009 var engin umframaukning í réttindum. Ef við lítum hins vegar til Lífeyrissjóðs verslunarmanna þá voru réttindin aukin um 21,1% á þessu tímabili. Í gær var tilkynnt að lífeyrisgreiðslur yrðu skertar um 10%. Þá standa út af 9% sem lífeyrisþegar í Lífeyrissjóði verslunarmanna hafa fengið umfram þá sem eru í A-deild LSR. Þegar við tölum um réttlæti, jöfnuð og jafnræði þarf að sjálfsögðu að horfa (Forseti hringir.) á þessar staðreyndir líka.