störf þingsins.
Frú forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal beindi fyrirspurn til mín sem varaformanns sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um það hvort unnið væri að neyðaráætlun vegna öskufalls í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þingsins hefur ekki unnið slíka neyðaráætlun enda er það kannski ekki í hennar verkahring og hefði verið nær að beina þessari fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Ég hef aflað mér upplýsinga þaðan og það vill svo til að þar er fundur núna klukkan tvö í dag með þeim aðilum sem málið varðar. Ég hef fengið þær upplýsingar að ráðuneytið fylgist mjög grannt með framvindu mála á gosstöðvunum í samráði við m.a. Matvælastofnun, sveitarfélög á svæðinu og viðbragðsaðila, enda mun ráðuneytið vera hluti af almannavarnateymi vegna þessara atburða.
Hitt er annað mál að sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, eins og umhverfisnefnd þingsins, þarf að fylgjast mjög vel með því sem nú er að gerast og ég held að það gæti verið góð hugmynd að þessar tvær nefndir hittust sameiginlega og færu yfir stöðuna. Það er líka staðreynd að allir helstu sérfræðingar landsins sem koma að þessu máli eru mjög uppteknir núna vegna viðbragðsáætlunar og almannavarna.