störf þingsins.
Virðulegi forseti. Í þeirri ágætu skýrslu sem við erum flest að glugga í þessa dagana er töluvert rætt um tengsl fjármála við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn og einnig fjölmiðla við stjórnmálamenn. Persónulega hef ég lýst því hér í ræðustól að mér fyndust fjölmiðlar sleppa heldur billega í þessari skýrslu en það kann að vera ástæða til að skoða það sérstaklega.
Það sem hefur gerst undanfarið er að hæstv. utanríkisráðherra hefur viðurkennt að það voru óheppilega mikil eða náin tengsl milli Samfylkingarinnar og Baugs þegar verið var að fjalla m.a. um fjölmiðlafrumvarpið. Þetta var svolítið merkileg yfirlýsing, ekki síst í ljósi þess að ef við fylgjumst með fjölmiðlaumræðunni í dag er eins og lítil breyting hafi orðið á, sérstaklega á ákveðnum miðlum. Vil ég í því sambandi benda á að enn fer Baugur með tögl og hagldir í 365 miðlum, ef ég veit rétt, og hefur þar af leiðandi væntanlega mikil áhrif á þá umfjöllun sem þar fer fram. Þá kem ég að því sem ég vildi ræða sérstaklega, frú forseti, og það er að mér virðist sem ákveðnir fjölmiðlar, tengdir einmitt þessu ágæta fyrirtæki, forðist mjög að fjalla um tengsl Samfylkingarinnar við fjármálaöfl í þessari skýrslu, t.d. þá styrki sem komu allt í einu upp á yfirborðið sem ekki virðist hafa verið gerð grein fyrir, og ýmislegt annað í þessari skýrslu.
Frú forseti. Ég tel að það þurfi að fara mjög vandlega ofan í það hvort þingið þurfi að beita sér hratt og örugglega fyrir því að tengsl stjórnmálaflokkanna við fjölmiðla verði tekin fyrir með ákveðnum hætti og skýrð og reynt að koma í veg fyrir þau. Að mínu mati er hrópandi í allri umræðu í dag að þessi tengsl Samfylkingarinnar og Baugsmiðlanna virðast ekki hafa verið rofin.