störf þingsins.
Frú forseti. Í tilefni af umræðu um áhrif eldgossins, sem nú stendur yfir og hv. þm. Pétur Blöndal opnaði, get ég upplýst að fulltrúar almannavarna mættu á ríkisstjórnarfund í morgun og gerðu grein fyrir hver staða málsins væri. Eins og við höfum fylgst með í fréttum er alveg greinilegt að mjög vel er haldið utan um þessi mál af hálfu almannavarna, slysavarna- og björgunarsveita, heimamanna, sveitarfélaga og annarra þeirra sem að þessu koma á svæðinu (Gripið fram í.) þannig að það er mjög traustvekjandi. Hins vegar er þarna um mjög alvarlegt mál að ræða og ég hef sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fylgst mjög náið með störfum og verkefnum Matvælastofnunar, yfirdýralæknis og annarra þeirra sem koma að því að fylgjast með búfé og högum þess. Eins og er hefur þar ekkert alvarlegt gerst en auðvitað er gríðarlegt tjón á þeim jörðum sem hafa orðið fyrir þessum flóðum.
Nú vitum við ekki hvert framhaldið verður eða hvort breyting verður á vindátt sem getur þá dreift öskunni til annarra átta. Sem ráðherra fylgist ég náið með þessu öllu saman og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið heldur fund nú kl. 14:00 með fólki frá Matvælastofnun, yfirdýralækni, Bændasamtökunum, sveitarfélögunum, Veðurstofunni og öðrum sem þessu tengjast til að fara yfir málið, hvernig við getum sem best tekið þátt í að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri og gripið til aðgerða ef með þarf eða samhæft aðgerðir.
Ég vil (Forseti hringir.) segja að það verður að halda vel utan um þessi mál og ég mun sem ráðherra fylgja því eftir í (Forseti hringir.) framhaldi af þeim fundi sem ég verð á í dag með þeim aðilum sem þessu máli tengjast.