störf þingsins.
Hæstv. forseti. Mig langar til að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að koma hér upp og upplýsa okkur um þær aðgerðir sem ráðuneyti hans er að fara yfir vegna eldgossins sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir. Það sem er mikilvægasta verkefni stjórnvalda í dag varðandi það mál er að upplýsa almenning og íbúa og eins okkar ágætu nágranna sem verða fyrir töfum í flugi um það hver staðan er og hverjar horfurnar eru, eftir því sem menn best mega. Það er gríðarlega mikilvægt að bændur og aðrir, þá sérstaklega þeir sem þegar hafa orðið fyrir tjóni, finni að hugur okkar sem hér störfum er hjá þeim og hjá þeim íbúum sem þurfa að yfirgefa heimili sín og þeim sem þurfa nú að þola mikið öskufall. Það er gott að vita til þess að við eigum viðbragðskerfi sem heldur og sem virkar og það veitir manni fullvissu fyrir því að við höfum gert margt gott á undanförnum árum. Við erum þeim hæfileikum búin að geta þrátt fyrir allt staðið saman á tímum sem þessum. Við eigum gríðarlega sterka innviði og það hefur verið merkilegt að fylgjast með þeim fjölda sjálfboðaliða sem hafa unnið nótt sem dag á undanförnum vikum við að tryggja öryggi íbúa og ferðalanga á þessu svæði. Það segir okkur margt, það segir okkur að íslenska þjóðin kann að standa saman. Atvinnurekendur sem missa starfsfólk úr vinnu til að sinna þessum sjálfboðaliðastörfum hafa ekki gert mikið úr sínum hlut en mig langar að þakka þeim sérstaklega fyrir þeirra þátttöku í þessum viðbúnaði öllum saman sem og að sjálfsögðu því fólki sem stendur þarna vaktina, íbúum svæðisins sem hafa brugðist gríðarlega vel við fyrirmælum og tilmælum frá almannavörnum og ég vil hvetja okkur öll til að fylgjast vel með þessu máli og reyna að halda sem best utan um fólkið okkar.