138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

neyðaráætlun vegna eldgoss -- málefni LSR -- tengsl stjórnmálaflokka og fjölmiðla o.fl.

[12:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þm. Skúla Helgasyni um að gagnsæi er krafa fólksins. Það er líka krafa okkar sem hér erum. Því lít ég svo á að við tveir a.m.k. hljótum að vera sammála um að núna strax þurfi Alþingi og stjórnvöld að taka upp gagnsæ vinnubrögð. Mér dettur í hug yfirlýsingin sem skrifað var undir gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hún er trúnaðarmál, er sagt, og þingmenn ekki upplýstir um hana. Auðvitað hefði átt að kynna hana í utanríkismálanefnd, þar sem ríkir trúnaður, til þess að flokkarnir séu upplýstir sem og þingmenn.

Mig langar líka, virðulegur forseti, að koma einu á hreint. Hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi m.a. lýðræði í lífeyrissjóðum. Ef ég man rétt liggur hér frammi frumvarp sem ég held að Eygló Harðardóttir sé 1. flutningsmaður að og lýtur einmitt að því að auka lýðræði í lífeyrissjóðum.

Hv. þm. Þór Saari kom inn á eitt mál áðan og orðaði það þannig að í næstu kosningum mundu menn endurnýja umboð sitt. Ég velti fyrir mér hvort það þurfi ekki að huga að því að kjósa fyrr, ekki síst í ljósi þessarar skýrslu — hvort það þurfi ekki að skoða vandlega að boða til kosninga innan ekki mjög margra mánaða, hugsanlega innan árs eða eins og hálfs árs, til þess að stjórnmálamenn fái endurnýjað umboð. Þá geta kjósendur sagt hug sinn til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Ég vil bara velta því upp hvort þessi skýrsla kalli hreinlega á þetta.