138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[12:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirlestur á þessum frumvörpum eða þessa kynningu sem hér er. Vitanlega er þetta bara 1. umr. þannig að þau fara til nefnda og fá þar væntanlega umfjöllun.

Það eru nokkur atriði sem ég vil samt benda á og nota þetta andsvar til þess. Í fyrsta lagi finnst mér svolítið kaldhæðnislegt að vera að ræða um breytingar á lögreglunni þegar lögreglumenn ganga hér um samningslausir og vita mjög lítið um sína fjárhagslegu framtíð og annað. Mér hefði fundist brýnna að drífa í að klára það og sjá til þess að lögreglumenn geti sómasamlega unað við sitt eins og aðrir ríkisstarfsmenn því að ég held að margir ríkisstarfsmenn séu allþokkalega haldnir og held ég að höggva eigi á þennan hnút sem allra fyrst. Það hefði vitanlega átt að vera búið fyrir löngu.

Hitt er að í þessum frumvörpum, sérstaklega þó í frumvarpinu um framkvæmdarvaldið, eða því sem er boðað þar og þar af leiðandi skýrslu þeirri sem hæstv. ráðherra vitnaði í, er gert ráð fyrir fækkun opinberra starfa. Ég vil í þessu sambandi benda á að það er ekki alveg sama hvar er höggvið í að mínu viti þegar menn fara af stað í þetta. Ég vil t.d. benda á að hjá sýslumanninum í Hólmavík, sem er jú í mínu kjördæmi svo því sé haldið til haga, eru 14% opinberra starfa þess byggðarlags. Bið ég menn að huga að því hvað það mundi þýða t.d. á höfuðborgarsvæðinu ef svipuð fækkun opinberra starfsmanna yrði þar.

Vil ég endilega líka koma því að, frú forseti, að heildarfjöldi stöðugilda hjá ríkinu, opinberum hlutafélögum, var 18.819 í lok síðasta árs og hafði aukist úr 13.940 og á árum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fjölgaði opinberum störfum um 20% ef ég man rétt, reyndar 38% í ráðuneytum Samfylkingarinnar. Þannig (Forseti hringir.) er hægt að taka til í þessu, það er alveg ljóst, en ég bið hæstv. ráðherra og nefndirnar að fara varlega.