138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu og raunar fyrir störf hennar almennt. Hæfni ráðherrans í að fást við viðkvæmt ráðuneyti á erfiðum tímum hefur sannarlega vakið athygli, bæði hér innan þings og utan.

Ég held að það mál sem hér er mælt fyrir um fækkun lögregluumdæma sé sannarlega skref í rétta átt en vil lýsa því sjónarmiði mínu að þar er varlega farið í að fækka þeim ekki nema í sex. Ég vil sömuleiðis lýsa því almenna sjónarmiði að Ísland eigi að vera eitt umdæmi, nema í algjörum undantekningartilfellum, hvort sem við erum að tala um kjördæmi eða þjónustuumdæmi. Vegna þess að við höfum skipt okkar litla landi, sem telur nú ekki nema 0,3 milljónir manna, upp í umdæmi á tímum þegar samgöngur voru með allt öðrum hætti en nú er, þegar fjarskipti voru með allt öðrum hætti en nú er og þegar allir möguleikar okkar til yfirsýnar yfir landið allt voru með allt öðrum hætti.

Ég hef staðið fyrir því sem formaður efnahags- og skattanefndar hér fyrr í vetur að sameina öll skattumdæmi í eitt ríkisskattstjóraembætti og umdæmi. Það varð ekki til þess að fækka störfum úti á landi. Það varð að ýmsu leyti til þess að efla starfsstöðvar þar með því að þangað var hægt að flytja ýmis verkefni og standa fyrir sérhæfingu.

Ég tel að við eigum að horfa til þess í öllum málaflokkum að leggja niður þessi sveitamæri vegna þess að afbrot spyrja ekki um sveitamæri. Afbrot eru framin á Íslandi og ég held að þó að það sé eflaust af ýmsum ástæðum og rökstutt og vel grundað af ráðherrans hálfu að taka þetta skref að þessu sinni, þá eigi það sannarlega að vera markmið okkar til lengri tíma að hafa hér eitt ríkislögreglustjóraumdæmi á Íslandi og fást við landið sem eina heild í þessum málaflokki eins og öllum öðrum því að sameinaðir kraftar ná mestum árangri.