138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:03]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir orð hans og fyrir þá skoðun sem hann lýsti vegna þess að það gefur mér tækifæri til að fara aðeins yfir það að starfshópurinn sem skipaður var síðasta sumar komst upphaflega að þeirri niðurstöðu að farsælast væri og væru helstu rök til þess að lögreglan yrði eitt umdæmi og lögreglustjóra yrði skipað á landsvísu. Þegar málið var unnið áfram varð niðurstaðan hins vegar sú í ljós að menn hurfu frá þeim áformum og það þótti of róttækt og of bratt í farið með tilliti til þess að það voru líka hagsmunir okkar að þetta yrðu breytingar sem næðu fljótt fram að ganga. Ég skal því viðurkenna að í þessu frumvarpi er nefnilega varlega stigið til jarðar, og í rauninni þau stystu skref sem unnt var að taka þegar litið var til stofnanakerfis lögreglu og sýslumanna í ljósi stórminnkaðra fjárheimilda. Í raun er þetta frumvarp stysta skrefið. En eins og ég kom inn á áðan var líka rætt um sýslumenn en þessu hefur nú verið skipt upp og það tek ég fyrir síðar.

Ég tel að með frumvarpinu séu lögð til þessi skref. Löggjafanum gefst líka tækifæri til að skoða málið og líta á það og lýsa vilja sínum með það ef framtíðarfyrirkomulagið ætti að vera eitthvað annað, ef við ætlum að fara í róttækari breytingar gefst löggjafanum tækifæri til að lýsa þeirri skoðun sinni. En þetta frumvarp eitt og sér og þessar tillögur koma nefnilega ekki í veg fyrir frekari breytingar þótt ég telji að hér sé nægilega að gert.