138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð yfir málið sem var greinargóð. Þegar ráðist er í stórar og miklar breytingar er gott að hafa vaðið fyrir neðan sig og vera búinn að undirbúa þær vel. Ég fagna því að ekki var ráðist í þessar breytingar frá og með síðustu áramótum, enda áttum við þar orðaskipti um málið, þær tillögur komu fram í nafni hagræðingar en ekki var búið að sýna fram á neina hagræðingu af þeim fyrirætlunum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver úttekt hafi verið gerð eða hvort meiningin sé að gera einhverja óháða úttekt á því hvernig þær breytingar sem fram hafa farið á embætti lögreglunnar í Reykjavík hafa komið út. Hefur löggæslan eflst við þær breytingar? Eru fjármunir betur nýttir? Hefur yfirmönnum fækkað? Hefur lögreglumönnum á götunni fjölgað? Er embættið að nýta eða njóta stærðarhagkvæmni eða er það einfaldlega of stórt?

Jafnframt væri gott í samhengi við þetta að gera úttekt á því hvernig breytingarnar á embættinu á Suðurnesjum hafa komið út, og þá með tilliti til sömu spurninga.

Það er gríðarlega mikilvægt þegar við förum í miklar breytingar að vera vel áttaður á hlutunum. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að við séum búin að temja okkur þau vinnubrögð að læra ekki af reynslunni. Þess vegna tel ég mikilvægt að fara í þessa skoðun og sérstaklega í ljósi þess að ríkisendurskoðandi hefur einhvern tímann sagt í lærðri skýrslu að breytingar heppnist í um 15% tilvika, og vísar þá til hagræðingarbreytinga, þ.e. breytinga sem hafa það markmið að hagræðing fylgi.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því að umsögn fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu gefur okkur til kynna að það geri ráð fyrir því, þ.e. fjármálaráðuneytið, að lögreglumönnum sem og öðru starfsfólki lögregluembætta fækki í heildina á næstu árum með því að nánast engar nýráðningar koma á móti fækkun vegna þeirra starfsmanna sem fara á eftirlaun eða hverfa til annarra starfa. Er þetta það sem dómsmálaráðuneytið er að leggja til með frumvarpi þessu?