138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:09]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Það er vissulega rétt að líta þarf til þess sem þegar hefur verið gert og læra af því. Þannig var gerð áfangaskýrsla árið 2008 í tíð þáverandi dómsmálaráðherra sem fól í sér þá niðurstöðu að sameiningin frá 2007 hefði í meginatriðum tekist vel. Það sýnir sig líka í því sem gerðist þar að það er í rauninni vel hægt að stækka umdæmin og hagræða í yfirbyggingu án þess að það bitni á starfseminni. Í þessu sambandi vil ég reyndar koma inn á það að launakerfi lögreglumanna er þannig háttað að ástæður eru fyrir því að strúktúrinn er eins og hann er. Auðvitað er, eins og ég kom inn á, mikilvægt að leysa kjaramál lögreglumanna.

Hvað varðar umsögn fjármálaráðuneytisins þakka ég hv. fyrirspyrjanda að nefna það. Eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni felur þessi sameining ein og sér ekki í sér það að menn missi störf og við reynum að fara eins mjúkum höndum um þetta og við getum. Hins vegar er það þannig að með skertum fjárheimildum verður einhvers staðar undan að láta, en það er vissulega ekki stefna ráðuneytisins að það eigi að fækka lögreglumönnum. Það viljum við forðast í lengstu lög. Það tel ég afar óheppilegt ef það yrði niðurstaðan.