138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

lögreglulög.

586. mál
[13:57]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla að þakka þessa umræðu og vil byrja á því að segja að þær tillögur sem felast í þessu frumvarpi byggjast á töluvert mikilli vinnu. Sú vinna hefur tekið tíma og menn hafa þurft að rökræða ýmis atriði. Þess vegna tel ég hreint ekkert óeðlilegt að þingmenn þurfi einnig að gera það. Ef tillögurnar eru góðar þá þola þær umræðuna. Ef þær eru þannig að þær megi bæta þá er það niðurstaðan. Ég tel það ekki vera hlutverk framkvæmdarvaldsins að setja sig upp á móti neinum þeim breytingum sem meiri hluti þingsins telur skynsamlegar.

Það er í rauninni inngangur minn að því hvaða tillögur eru gerðar varðandi umdæmi. Umdæmin eru lögð til á þennan hátt út frá ákveðnum sjónarmiðum um stærð lögregluliða og sveigjanleika í þeim efnum. En þegar kemur t.d. að umdæmum eins og Vesturlandi, sem yrði þá Vesturland og Vestfirðir samkvæmt tillögum frumvarpsins, þá tek ég undir að það gæti verið dálítið bratt að gera það að einu umdæmi. Á móti kæmi heimild sem fæli sýslumanni daglega stjórn lögreglu í umdæmi sínu til þess að vega upp á móti því. Hins vegar tel ég að þingmenn verði að ræða það. Ef niðurstaðan er sú að betra sé að hafa tvö eða fleiri fámenn lögreglulið innan þessa umdæmis eins og búið er að leggja til verður það þannig. Við skiptum ekki landinu með reglustiku. Þess vegna verður maður að skoða staðhætti og líta til stærðar lögregluliðs. Hvert er markmiðið með því að hafa lögregluliðið eins og það er og hvað tapast við það að hafa fleiri? Þannig held ég að þingmenn verði að vinna sig í gegnum þessa umræðu rétt eins og við erum búin að gera í ráðuneytinu og komast að niðurstöðu um að leggja þetta til. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að í sumum umdæmum frekar en öðrum geta verið uppi sérstök sjónarmið sem gætu valdið því að önnur umdæmaskipting væri skynsamlegri en lögð er til í frumvarpinu. Ég er með öðrum orðum að segja að það verði að fara í gegnum þetta og ræða það.

Hvað varðar sparnaðinn, umsögn fjármálaráðuneytisins og hvort ekki megi ná fram hagræðingu í bakvöktum og innkaupum o.s.frv. eða aðallega með innkaupum án þess að fara í svo viðamiklar breytingar sem raun ber vitni, er ákveðin takmörkun fólgin í því að hafa mörg sjálfstæð embætti. Ákvarðanataka um ýmis atriði lítur öðruvísi út þegar um stærra embætti er að ræða og lýtur að mönnun, bakvöktum, innkaupum og öðru slíku. Hættulegt getur verið að sjá tölur í kostnaðarumsögnum vegna þess að ráðuneytin verða hrædd um að þar verði næsta sparnaðarkrafa. Ég tel aðalsóknarfærin hvað varðar fjármálin vera hagræðingu, þ.e. að hægt sé að nota peningana sem úthlutað er á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Vilja menn eyða peningunum í yfirbyggingu eða vilja menn eyða þeim í eitthvað annað? Vilja menn t.d. eyða þeim í almenna löggæslu? Þetta tel ég að auki sveigjanleikann þannig að peningum sé sem best varið. Það er vissulega engin vanþörf á þegar spurt er um öryggisstig lögreglu.

Ég velti þessu mikið fyrir mér vegna þess að löggæsla er enginn munaður. Löggæsla er nauðsynleg í okkar samfélagi. Ég hef talað um grunnþjónustu lögreglunnar og vinnuna sem felst í að skilgreina hana sem þegar hefur verið gerð skýrsla um en þarf að vinna aðeins meira í. Í raun og veru snýst þetta um þá niðurskurðartíma sem við lifum, þ.e. minnkaðar fjárheimildir alls staðar. Ef við ætlum að segja að sú krafa sem er gerð til okkar sé óraunhæf eða að við getum ekki mætt henni verðum við líka að vera viss um að við notum peningana á sem bestan hátt. Það tel ég algjört lykilatriði.

Síðan er að minnka yfirbyggingu. Það er ekki til þess að tala niður til þeirra sem gegna yfirmannsstöðu hjá lögreglu. Það er einmitt eins og bent var á hérna áðan að ákveðið framgangskerfi innan lögreglunnar veldur því að strúktúrinn er eins og hann er og þá verður jafnvel að finna út aðrar leiðir til þess að umbuna lögreglumönnum í starfi. En það verður líka að vera þannig að það sé alveg ljóst að þótt viðkomandi sé í yfirmannsstöðu í núverandi kerfi gæti staðan í einhverju breyttu kerfi falist í almennum lögreglustörfum og verið jafnvirðingarverð og -hvetjandi til framgangs.

Ég ætla aðeins að fá að víkja að höfuðstöðvum. Ég sé að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sýnir á sér fararsnið þannig að ég ætla að fá að — (EKG: Nei, bara staðinn upp.) Vissulega er rétt að leiða má líkur að því að höfuðstöðvarnar séu á hinum stærri stöðum. Það er þó ekki alveg augljóst í öllum tilvikum hvar þær ættu að vera. Ég bendi á það af því að hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spurði um sýslumannsfyrirætlanir. Það er þannig að skýrsla um tillögur að breytingum á skipan sýslumannsembætta í landinu hefur verið birt á heimasíðu ráðuneytisins og send öllum sýslumönnum. Í rauninni sjáum við fyrir okkur kerfi þar sem höfuðstöðvar lögreglu eru í einu umdæmi en höfuðstöðvar sýslumanns geta allt eins verið á öðrum stað. Þannig getum við dreift embættunum um umdæmin. Ég er sammála því að það eigi ekki að búa til stærri umdæmi en það verður að varast að setja allt á einn stað. Það má girða fyrir með ýmsum hætti að það gerist. Ég hef heyrt af þessum umræðum öllum frá því að við hófum þær í fyrra að menn eru hræddir við að stækka umdæmi vegna aukinnar miðstýringar. Ég tel að það séu réttmætar áhyggjur en það hljóta að vera ákveðin tæki til að varna að það gerist. Þessi skýrsla sem er í rauninni ekki umræðuefni undir þessum dagskrárlið sýnir þessa nálgun sem við sjáum fyrir okkur að verði viðhöfð í þeirri vinnu sem varðar sýslumannsembættin.

Eins og ég sagði í byrjun umræðunnar er hér lögð til breyting á lögregluumdæmum og síðan kemur sýslumannsumræðan sem er í rauninni annað vers. Þetta er nátengt en þó ekki það samtvinnað að bráðnauðsynlegt sé að ráðast í breytingar á sýslumannsembættum strax og þetta er búið, þ.e. það eru ákveðin rök fyrir því en við erum ekki í neinni rússíbanagerð hér um stofnanakerfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Ég tel að við verðum að gefa okkur tíma fyrir hvert skref. Ég tel mig hafa verið að gera það núna með því að fara vel ofan í málin og taka skrefin.

Í því sambandi vil ég nefna sérstaklega embætti ríkislögreglustjóra vegna þess, eins og ég kom að hér í framsöguræðu, að í embætti ríkislögreglustjóra eru þessi verkefni leyst vel af hendi. Það eru ákveðnar ástæður fyrir því að þau hafa farið til embættis ríkislögreglustjóra. Það geta sömuleiðis verið ástæður til að þau fari frá embættinu en það geta líka verið ákveðin rök fyrir því að þau verði áfram þar. Þess vegna legg ég ekki til neinar grundvallarbreytingar í lagatexta varðandi embætti ríkislögreglustjóra. Það verður að fara mjög vel yfir hvaða skref við tökum og hvers vegna.

Hvað varðar eldgosið sem er nú í Eyjafjallajökli sýnir það sig hversu sterkt er að hafa miðstýrða starfsemi á einstökum sviðum. Nefni ég þar almannavarnadeild. Það er auðvitað sterkt að hafa starfsemi á landsvísu sem kemur saman og hefur stjórn á samhæfingarstöðinni. Ég þarf ekki að rekja það hér.

Það er önnur spurning hvort slík starfsemi ætti að heyra undir eitthvert eitt lögregluembætti. Ef ekki, þá hvers vegna ekki? Ég held að við þurfum að rekja okkur í gegnum þessa umræðu svona og fara í gegnum sterkustu og faglegustu rökin. Ég segi það aftur að ef tillagan þolir ekki umræðu er hún afskaplega slæm og vil ég ljúka máli mínu með því. Ég held að ég hafi svarað flestum spurningum.