gjaldþrotaskipti o.fl.
Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram, enda tekur það á ýmsum álitaefnum sem hafa verið til umfjöllunar í þverpólitískum vinnuhópi sem var skipaður hér í haust og hefur unnið að því að fara yfir þau úrræði sem þegar hafa verið samþykkt af núverandi og fyrrverandi ríkisstjórn til að bæta stöðu þeirra aðila sem eru komnir í veruleg greiðsluvandræði.
Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig mun þetta mat á markaðsvirði eignar fara fram? Er gert ráð fyrir að það sé einfaldlega hringt í næsta fasteignasala og hann meti hana eða er gert ráð fyrir að kröfuhafinn sjálfur geti metið markaðsvirði eignar?
Nú er ekki auðvelt að svara neinum spurningum varðandi fasteignir í dag. Markaðurinn er ekki mjög virkur, því miður, og því er gott í þessari umræðu að við reynum að átta okkur svolítið á því hvernig þetta komi til með að virka í framkvæmd.
Að öðru leyti vil ég segja að það er gríðarlega mikilvægt að rétta af réttarstöðu skuldara. Mig langar þó jafnframt að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra, þar sem ráðherrann hefur velt þessum málaflokki mikið fyrir sér, þ.e. skuldavanda heimilanna. Hefur einhver af þessum aðgerðum það í för með sér að þeim aðilum, þeim heimilum sem komast í veruleg vandræði, fækki?
Það hafa heyrst ákveðnar áhyggjuraddir af þeim yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar að nú sé öllum vanda heimilanna svarað með þessum aðgerðapakka sem kominn er fram. En þær aðgerðir virðast flestallar beinast að því að aðstoða skuldara sem komnir eru í veruleg greiðsluvandræði, það er ágætt, það þarf að gera það, en færri úrræði séu komin fram sem gera það að verkum að þeim aðilum sem þurfa að nýta þessi greiðsluvandaúrræði, fækki. Hefur hæstv. ráðherra skoðað þetta mál eða er þetta einfaldlega alfarið á borði félagsmálaráðherra?