gjaldþrotaskipti o.fl.
Virðulegi forseti. Svo ég víki fyrst að því sem lýtur að breytingu á nauðungarsölulögunum og spurningunni um hvernig markaðsvirðið er fundið út. Það er eiginlega þannig að það er kröfuhafans að sýna fram á það þegar hann gengur að skuldara og krefur hann um eftirstöðvar, þá er það kröfuhafans að sýna fram á það að hann eigi yfir höfuð þá kröfu á eftirstöðvum, hann verður að sýna fram á markaðsvirðið. Við ræddum það hvort miða ætti við fasteignamatið en hurfum frá þeim áformum og ákváðum að setja þetta svona fram, að það er kröfuhafans að sýna fram á það og ef skuldari er ekki sammála verður kröfuhafi einfaldlega að grípa til þeirra ráðstafana sem unnt er. Það gæti auðvitað endað fyrir dómstólum í stað þess að það sé alltaf skuldara að sýna fram á og fullyrða hvað sé markaðsvirði. Það er því látið í hendur kröfuhafans.
Hvað varðar hina síðari spurningu eða síðara atriðið sem hv. fyrirspyrjandi kom inn á þá hefur það ávallt verið mín skoðun að skuldavandi heimilanna verði ekki leystur í gegnum fullnusturéttarfarið. Það er í rauninni það sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið og vissulega er það þannig að greiðsluaðlögunarlöggjöfin sem nú er í gildi ber merki fullnusturéttarfars, þetta eru nauðasamningar til greiðsluaðlögunar. En það sem ríkisstjórnin er að leggja til er að þetta færist yfir í málaflokkinn hjá félagsmálaráðuneytinu og breyti þannig aðeins um eðli, ef það svarar einhverju.