gjaldþrotaskipti o.fl.
Hæstv. forseti. Ég hef ekki miklu við þetta að bæta en vil þakka hv. þingmanni fyrir hans andsvar og að hvetja okkur öll hér í þingsalnum til að gleyma ekki þessu máli. Okkur hefur verið legið á hálsi fyrir það hér í þinginu að geta bara talað um eitt mál í einu. Þetta mál hlaut mikla athygli í haust, síðan kom Icesave og við fórum að tala um það öllum stundum og misstum kannski aðeins fókusinn á þetta mál, við skulum bara viðurkenna það, það var þannig.
Nú er rannsóknarskýrslan komin og hún er gríðarlega mikilvæg og það þarf að vinna úr henni og það er verið að gera það á ákveðnum vettvangi. En við megum ekki láta þá vinnu sem er í gangi varðandi skuldavanda heimilanna dragast í eina einustu mínútu. Við verðum að halda áfram með það verkefni af fullum krafti og vekja á því athygli hér í ræðustól Alþingis, hvenær sem við höfum færi á, og reyna að hvetja hvert annað áfram í því að vinna saman að lausn í þessu máli.