138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[14:43]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Þegar Fasteignaskrá Íslands var færð til ráðuneytisins lá beinast við að fara að huga að þessum þáttum. Sá einstaki munaður hefur verið við lýði í þessu máli að það er mikill vilji af hálfu beggja stofnana og starfsmanna í báðum þessum einingum að vinna að þessu og að sameinast. Það má því segja að miklir og góðir kraftar þeirra sem starfa að þessum málum hafi orðið til þess að þetta frumvarp er nú hér lagt fram á Alþingi. Það byrjar á því að menn sjá augljósa hagkvæmni í því að sameina tölvudeildir. Annað skref er það að hvort sem af lagalegri sameiningu verður eða ekki er augljós hagkvæmni fólgin í því að þessar skrár starfi hver nálægt annarri. En fullnaðaráhrif af hagkvæmni, bæði faglega og fjárhagslega, nást náttúrlega ekki nema með því að sameina þetta með þessum hætti.

Hvað varðar aðrar skrár er það kannski ekki mitt að tjá mig um skrár sem heyra undir önnur ráðuneyti, en vissulega er hérna búið í haginn fyrir það að fleiri skrár geti tekið þátt í þessu, þ.e. að ríkið geti þá rekið skrárnar með einhverjum sameinuðum hætti — þó með þeim varúðarsjónarmiðum sem eiga að gilda með samrekstur allra slíkra skráa. Ég tel að það sé alveg skýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar að það sé stefna til þess. En þetta er alla vega skrefið sem ég legg til núna að þessar skrár verði sameinaðar í eina öfluga skráastofnun.