138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

sameining Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands.

508. mál
[14:51]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er það rétt að gert er ráð fyrir því að starfssvið stjórnar Fasteignaskrár nái ekki til starfsemi Þjóðskrár og eins borðleggjandi og þessi sameining virðist vera eru í rauninni ákaflega ólík rekstrarform á þessu tvennu, þ.e. annars vegar Þjóðskrá og hins vegar Fasteignaskrá. Fasteignaskrá hefur ákveðna aðila í stjórn og þar á meðal sveitarstjórnir, þannig að þar er aðeins öðruvísi rekstrarumhverfi. Við leggjum því til að þetta haldist svona, að það verði forstjóri og það verði einingar, annars vegar Fasteignaskráin og hins vegar Þjóðskráin, og það geti verið stoðþjónusta sem gengur þvert á og gildi fyrir báðar einingar, en ég tel óhjákvæmilegt að í tímans rás verði þetta endurskoðað. Auðvitað ber þetta svolítið merki þess að hér er í rauninni verið að fara stysta skrefið og aftur tölum við nú um það. Það er einfaldlega vegna þess að ég taldi lag til að gera þetta svona. Það er mikill hugur í mönnum sem í þessu starfa að gera þetta með þessum hætti. En eins og ég hef sagt þarf að koma til nánari endurskoðun, einkum og sér í lagi á efnisreglum sem gilda um Þjóðskrá og ég tel óhjákvæmilegt einnig að það komi til endurskoðun á þessu þegar fram í sækir.