embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála.
Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara og er frumvarpið samið af réttarfarsnefnd. Meginmarkmið þess er að skilgreina með skýrari hætti en nú er gert hvert sé verksvið embættis sérstaks saksóknara gagnvart öðrum handhöfum ákæruvalds.
Þegar frumvarp til laga um embætti sérstaks saksóknara var lagt fram var gert ráð fyrir að verksvið embættisins yrði takmarkað við rannsókn og eftir atvikum saksókn vegna gruns um refsiverða háttsemi í aðdraganda og tengslum við þá atburði er leiddu til setningar laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Í meðförum þingsins var verksvið embættisins rýmkað þannig að það tekur nú ekki aðeins til ætlaðrar refsiverðrar háttsemi í aðdraganda og tengslum við umrædda atburði, heldur slíkrar háttsemi í kjölfar atburðanna.
Á þessum tíma var ekki ljóst hvaða mál mundu falla undir verksvið hins sérstaka saksóknara, en frá því að hann tók til starfa hefur hann hafið rannsókn á fjölmörgum málum sem öll eiga það sammerkt að þau tengjast með einhverjum hætti þeim fjármálafyrirtækjum sem urðu greiðsluþrota haustið 2008. Sum þessara mála varða þá sem áttu stóra hluti í þessum fyrirtækjum án þess að þau viðfangsefni sem rannsóknin beinist að verði öll heimfærð undir það orðalag sem nú er að finna í 1. mgr. 1. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara. Ákveðið svigrúm felst í 5. mgr. 2. gr. laganna þar sem tiltekið er að ríkissaksóknari taki ákvörðun um hvort sérstakur saksóknari fari með mál ef háttsemi feli í sér annað eða önnur brot en þau sem 1. gr. laganna nær til. Þrátt fyrir það þykir rétt að taka af allan vafa í þessu efni. Er því lagt til að tilvísun til atburða sem leiddu til setningar laga nr. 125/2008 verði felld brott úr 1. mgr. 1. gr. Þess í stað verði verksvið embættisins miðað við rannsókn og eftirfarandi ákvörðun um saksókn þegar fyrir hendi er grunur um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja án tillits til þess hvort slík fyrirtæki tengist þeim atburðum er leiddu til setningar laga nr. 125/2008 og einnig miðað við eigendur fyrirtækjanna, stjórnendur þeirra og aðra sem þeim tengjast.
Þá er jafnframt lögð til breyting á 5. mgr. 2. gr. á þann veg að ríkissaksóknari geti falið sérstökum saksóknara að fara með önnur mál en þau sem falla undir 1. gr. laganna ef það þykir hagkvæmara. Þá geti ríkissaksóknari falið öðrum ákæranda að fara með mál sem fellur þar undir, t.d. ef rannsókn er þegar hafin á máli er kann að eiga rætur að rekja til þeirra atburða sem vísað er til í 1. gr. en tengist ekki falli fjármálafyrirtækjanna eða öðrum þeim atburðum sem fyrst og fremst leiddu til setningar laga nr. 125/2008. Þessi breyting er hugsuð til að auka á hagkvæmni við rannsókn mála en henni er ekki ætlað að hafa áhrif á starfssvið sérstaks saksóknara eins og það var hugsað af hálfu löggjafans þegar embættið var sett á fót.
Þá eru með frumvarpi þessu lagðar til þrjár breytingar á lögunum um meðferð sakamála, í fyrsta lagi að leiðrétta tvær villur sem læddust inn í lagatextann og í öðru lagi til að taka af skarið um að heimilt sé að kæra til Hæstaréttar úrskurði héraðsdómara um að skipa sakborningi verjanda eða synja honum um að fá skipaðan verjanda í sakamáli. Slík heimild var í eldri lögum og þykir rétt að taka af skarið um að þessi regla á enn við.
Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.