138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

embætti sérstaks saksóknara og meðferð sakamála.

511. mál
[15:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Miðað við framsögu hæstv. dómsmálaráðherra er hér um að ræða lagfæringar á löggjöf sem sjálfsagt er að skoða en ég hygg að séu byggðar á ágætum grunni. Ég vildi hins vegar nota þetta tækifæri til að lýsa því að í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað og í ljósi þess hvað rannsóknarskýrsla Alþingis tekur á mörgum þáttum sem geta leitt til afskipta hins sérstaka saksóknara vildi ég undirstrika að það er afar mikilvægt að tryggt verði að það embætti hafi bolmagn til að sinna þeim ótalmörgu verkefnum sem fyrirsjáanlegt er að það muni sinna.

Þetta embætti var sett á fót með löggjöf haustið 2008 og eins og fram hefur komið áður í þinginu hefur það vaxið heilmikið frá því sem upphaflega var áætlað. Allt frá upphafi hefur verið um það býsna góð pólitísk samstaða að það væri nauðsynlegt að bregðast við þeim viðamiklu verkefnum sem að því snúa með þá nauðsynlegum fjárveitingum og mannaráðningum þannig að fjárhagslegir þættir yrðu ekki með neinum hætti til þess að takmarka möguleika þessa embættis á að sinna því hlutverki sem allir sjá að er gríðarlega mikilvægt í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu.

Ég segi fyrir sjálfan mig að miðað við þá skoðun á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem ég hef haft tök á að viðhafa núna í vikunni eru töluvert fleiri þættir sem augljóslega mun reyna á fyrir dómstólum en ég átti von á. Við getum sagt að megindrættirnir hafi kannski þegar verið komnir fram en á hinn bóginn virðast vera enn þá fleiri mál sem nauðsynlegt er að reyni á fyrir dómstólum, að það reyni á hugsanlega refsiábyrgð manna, og það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að embætti sérstaks saksóknara geti unnið að þeim málum, bæði hratt og örugglega. Til þess þarf fjármuni, ég held að allir geri sér grein fyrir því, og ég fagna því að hæstv. dómsmálaráðherra lýsti einmitt nýlega vilja til þess að standa fyrir slíkum breytingum.

Við stöndum frammi fyrir því, eins og áður hefur komið fram hér í dag í umræðum, að víða kreppir að í ríkisrekstrinum en þessi verkefni eru hins vegar alveg sérstaks eðlis. Á þeim tímum sem við lifum er staðan sú að réttarríkið og réttarkerfið þarf að sinna sínu gríðarlega mikilvæga hlutverki þannig að við getum í rauninni gert upp það sem liðið er og hafið uppbyggingarstarf til framtíðar. Embætti sérstaks saksóknara er þar í miðpunkti.

Ég vildi nota þetta tækifæri í leiðinni til að nefna að þrátt fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra hafi haft forgöngu um að fjölga héraðsdómurum, sem auðvitað er nauðsynlegt að mínu mati til að mæta auknum málafjölda vegna þeirra atburða sem átt hafa sér stað í fjármálakerfinu, þarf engu að síður einfaldlega að meta hvort það sé nægilegt til að mæta hinu stóraukna álagi á réttarkerfið.

Eins þarf, eins og starfandi umboðsmaður Alþingis benti nýlega á í blaðagrein, að huga að stöðu Hæstaréttar. Er þannig búið að Hæstarétti að hann geti tekið við öllum þeim málafjölda sem fyrirsjáanlega mun rata þangað á næstu missirum, bæði í fjölda sakamála, sem er kannski það sem við erum að hugsa helst um núna, og eins í ljósi þess fjölda einkamála sem bankahrunið hefur í rauninni gefið tilefni til? Ég beini þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort sá þáttur sem snýr að dómstólunum hafi verið endurmetinn af hálfu ráðuneytisins á allra síðustu dögum eða vikum í ljósi aðstæðna. Auðvitað þurfa allir þættir kerfisins að vera í lagi.

Það er mikilvægt að tryggja að ákæruvaldið, embætti saksóknara og sérstaks saksóknara séu í stakk búin til að sinna hlutverki sínu, en það þarf líka að búa þannig að dómstólunum að þeir geti tekið við þeim gríðarlega málafjölda sem mun stafa af þessum atburðum öllum. Það er forsendan til að dómstólarnir hafi afl til að takast á við þennan málafjölda og geti gert það á viðunandi tíma. Það má ekki verða einhver málahali sem geri það að verkum að mál sem varða mikilvæga fjárhagslega hagsmuni og líka spurningar um sekt eða sakleysi einstaklinga fái ekki eins skjóta úrlausn og hægt er þannig að bæði einstakir aðilar og þjóðfélagið í heild þurfi að bíða óhæfilega lengi eftir því að niðurstöður fáist.