138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:36]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við náðum auðvitað að fara í umfangsmiklar almennar aðgerðir í haust sem tugir þúsunda heimila nýta sér og skipta sköpum fyrir fjölda heimila. Ég held hins vegar að þetta sé hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni að það skipti máli að við höfum umgjörðina helst það skýra að bankarnir geti leyst úr sem flestum þessara mála sjálfir þannig að vinnist hratt úr þeim.

Ef við höfum úrræðin það flókin að við þurfum opinberan atbeina til að leysa mál hvers og eins tekur það auðvitað lengri tíma. Þess vegna held ég að reglurnar þurfi að vera skýrar og það þurfi að vera auðvelt fyrir fólk að fá opinbera fyrirgreiðslu til þess að bankarnir vinni hratt og vel. Það hefur svolítið skort á það hingað til. Við reynum með þessu að tryggja það betur.

Svo þurfum við að hafa á hreinu allar reglur, t.d. varðandi skattlagningu afskrifta og slíkt. Það þarf að vera alveg ljóst af hálfu ríkisvaldsins að fólk geti gengið frá sínum málum án þess að þurfa að óttast að sá ávinningur sem það fær af því að ljúka skuldamálum sínum verði tekinn af því um leið og það gengur út.