138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:43]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef haft öðrum hnöppum að hneppa en skoða reikningsskil þessara banka þannig að ég get ekki farið nákvæmlega yfir þau enda ekki kannað þau sérstaklega. Ég er ekki að ásaka hv. þingmann um að bera fyrst og fremst hag banka fyrir brjósti en mín skilaboð eru að við verðum að láta almenning njóta fulls svigrúms til að losna undan ósjálfbærri skuldsetningu.

Auðvitað vinnur efnahags- og skattanefnd að því að kortleggja þetta svigrúm og markmiðið með vinnunni er að tryggja að bankarnir greiði úr vanda fólks í samræmi við svigrúmið sem þeir hafa. Það hefur heldur ekki farið á milli mála í sambandi við fyrirtæki á þessum markaði að innan bankanna, þar sem efnahagsreikningar hafa verið gerðir og nýir settir upp, er í mörgum tilvikum miklu auðveldara en hjá öðrum fjármálastofnunum að gera sér grein fyrir því sem er óhjákvæmilegt vegna þess að gert hefur verið ráð fyrir tapi. Við þurfum kannski að koma sama skilningi til allra eignaleigufyrirtækja, lífeyrissjóða, (Forseti hringir.) sparisjóða og allra annarra sem hafa ekki tvo efnahagsreikninga, einn gamlan og einn nýjan. Kannski ættu allar fjármálastofnanir að láta útbúa tvo efnahagsreikninga sér til hugarhægðar (Forseti hringir.) og til að auðvelda meðferð erfiðra skuldamála.