138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:46]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ítrekað sagt að meðferð skuldamálanna hefur ekki gengið eins hratt og ég vonaði í haust. Það er hins vegar ekki hægt að lesa það út úr skýrslu Seðlabankans í þessari viku að ekkert hafi gerst. Þvert á móti er ljóst af niðurstöðu Seðlabankans að þrátt fyrir 35% hækkun verðlags og þrátt fyrir tíföldun atvinnuleysis hafa hinar almennu aðgerðir okkar tryggt að nokkurn veginn jafnmargir eru í alvarlegum vanda og voru í byrjun árs 2008, þ.e. löngu fyrir hrun. Ég verð að segja alveg eins og er að það gæti alveg verið ástæða fyrir okkur að berja okkur á brjóst fyrir þetta en ég sé enga ástæðu til þess því að betur má ef duga skal, eins og hv. þingmaður nefnir alveg réttilega.

Stærsta aðgerðin sem getur hjálpað þeim hópi sem er í verulegum vanda er almenn aðgerð vegna bílalánanna. Hún er í vinnslu og það mun geta breytt miklu fyrir þann hóp. Síðan er fjöldi úr þessum hópi búinn að leita sér úrræða og lausna í bankakerfinu, í gegnum greiðsluaðlögun og sérstaka skuldaaðlögun án þess að það komi fram í tölum Seðlabankans. Við megum því gæta þess að oftúlka ekki hina neikvæðu sýn. Þó að 22% séu talin í vanda, og voru 20% fyrir hrun, ber að hafa í huga að þar er ekki tekið tillit til þess að a.m.k. 2.000 manns úr þessum hópi eru búin að leita sér úrræða og við munum með almennum úrræðum varðandi bílalánin koma mjög til móts við þennan hóp og fækka verulega í honum þannig að færri verði í alvarlegum vanda en voru fyrir hrun. Ég teldi mjög mikilvægt að við næðum því sem almennri aðgerð.

Ég held að leiðin sem við eigum að fara til að þvinga bankana í að taka hratt og örugglega á málunum sé að samþykkja hratt og vel frumvörpin sem hér er mælt fyrir vegna þess að þau munu öll hafa þau áhrif að tapáhætta bankanna eykst stórlega. Þeir græða ekkert lengur á að drolla. Þeir græða ekkert lengur á að reyna að innheimta ábyrgðarskuldbindingar og það borgar sig fyrir þá að vinna hratt í málunum, leysa þau hratt og mæta fólki með jákvæðum og uppbyggilegum hætti.