138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:49]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að taka það fram þegar við ræðum um þessa niðurstöðu Seðlabankans að í þeim tölum sem þar birtust voru enn þá þær staðreyndir á borðinu að lán voru í frystingu. Það er þannig samkvæmt þeim sérfræðingum sem ég hef talað við. Eins inniheldur sá framfærslugrunnur sem miðað er við í einhverjum útreikningum Seðlabankans í þessari skýrslu ekki allar grunnskuldir íslenskra heimila, eins og t.d. LÍN-skuldir og dagvistunargjöld, að því er mér skilst.

Það er gott að hæstv. ráðherra er farinn að tala um almennar aðgerðir og talar þar um bílalánin. Það er sama hvort menn eru sammála um hvort of langt sé gengið í þeim efnum, það er algjörlega ljóst að meira þarf að koma til en nú liggur á borðinu. Þá er næsta spurning þessi: Af hverju eru einhver önnur rök fyrir því að fara í almennar aðgerðir varðandi bílalánin en gagnvart þeim fasteignalánum sem bankarnir veittu fjölskyldum landsins?