138. löggjafarþing — 107. fundur,  16. apr. 2010.

tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði.

561. mál
[15:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að tala stutt. Mér fannst hv. þm. Þráinn Bertelsson lýsa þessu mjög vel áðan þar sem hann líkti þessu við það að menn væru með lekt þak en væru alltaf að setja stærri fötur undir og leita að mesta lekanum. Það er í raun og veru lýsingin á þessu. Ég tek hins vegar undir með þeim hv. þingmönnum og fagna þessu frumvarpi því að þar eru menn jú að bera inn stærri fötur undir stærri leka. En í raun og veru er það skoðun mín, og ég hef verið á þeirri skoðun alveg frá því að ég kom inn á þing, að við hefðum átt að gera þetta öðruvísi og þá hefði skaðinn ekki orðið eins mikill og hann er orðinn í dag, því miður.

Það er líka staðfest núna, hv. þm. Lilja Mósesdóttir staðfesti það áðan og sagði frá því að á fundi efnahags- og skattanefndar í morgun hefði svokallaður landstjóri eða fulltrúi AGS einmitt sagt að það hefði gengið allt of hægt að leiðrétta skuldavanda heimilanna. Það er sú staðreynd sem við horfum fram á.

Virðulegi forseti. Til að undirstrika þetta var viðtal við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir ekki svo löngu síðan þar sem hann talaði um að það tæki svona tvö til þrjú ár að greina vandamál heimilanna í landinu. Við sjáum því í hvaða farvegi við erum. Ég hefði talið eðlilegra og hef lengi sagt það og margoft sagt það hér — en mig langar kannski að vekja fyrst athygli á einu. Ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra og spurði hvort hann gæti veitt mér upplýsingar um hverjar afskriftirnar hefðu verið á milli gömlu og nýju bankanna. Hæstv. ráðherra gat það ekki og þá sjáum við umhverfið sem við erum í þegar menn eru að búa sér til hugmyndir og skoðanir og vinna að úrlausnum um þau vandamál sem þarf að leiðrétta fyrir heimilin, að menn hafa þá ekki þessar upplýsingar í hinu nýja opna og lýðræðislega þjóðfélagi þar sem allt á að vera uppi á borðum. Mig langar bara að vekja athygli á þessu.

Ég er búinn að senda tvisvar skriflegar fyrirspurnir til að reyna að fá svör við þessum spurningum, hvað var í raun og veru fært á milli gömlu og nýju bankanna. Síðan geta menn sagt að kröfuhafarnir eigi þá, eins og hæstv. ráðherra sagði áðan, honum var svo sem alveg sama um bankana, þeir gætu bara farið á hausinn. En við skulum líka átta okkur á einu, að kröfuhafar gömlu bankanna eru að selja á milli sín skuldabréfin hjá bönkunum, þannig að það er ekkert víst að þeir sem áttu bankana þegar þeir fóru á hausinn eigi þá í dag. Margir sem voru að kaupa hlutabréf inni í þrotabúunum veðjuðu bara á þetta. Sumir keyptu í Landsbankanum og tapa þar af leiðandi öllu, sumir keyptu í Glitni og sumir keyptu í Kaupþingi og þeir hafa sumir hverjir, er mér sagt, grætt fúlgur fjár. Við getum því ekki sett þetta í það samhengi sem hæstv. ráðherra gerði áðan að það væri í raun og veru alveg sama hvort það væri nýi eða gamli bankinn vegna þess að kröfuhafarnir eru bara ekki þeir sömu og þeir voru. Eigendur bankanna við hrunið eru hugsanlega ekki þeir sömu og eru eigendur í dag, við vitum ekkert um það. Það eru vogunarsjóðir, það eru stórir bankar, er mér sagt, sem hafa gert þetta. Og markaðsvirðið á einhverju aflandsgengi á bak við tjöldin á einmitt nýju bönkunum, sérstaklega þessum tveimur, við þurfum ekki að tala um Landsbankann, það liggur fyrir með hann, hefur nefnilega hækkað, stórvaxið. Þess vegna var ég að vekja athygli á því áðan í ræðu minni, hvort það gæti verið að við hefðum ekki fært, og það er mín skoðun, afskriftirnar til heimilanna í landinu sem klárlega voru færðar á milli gömlu og nýju bankanna. Það er mín skoðun.

Ég ætla að vekja athygli á einu, virðulegi forseti. Ég óskaði eftir skriflegu svari þar sem spurningin er svona: Um hve háa fjárhæð voru húsnæðislán gömlu bankanna afskrifuð við kaup nýju bankanna? Og þá kemur svarið, að ekki sé heimilt að veita mér þetta svar af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Ég spyr síðan aftur: Hvað má gera ráð fyrir að ríkisbankarnir og Íbúðalánasjóður gjaldfæri háar afskriftir vegna niðurfærslu húsnæðislána til einstaklinga?

Virðulegi forseti. Ég ætla að vekja athygli þingheims á því hvert svarið er. Svarið er nákvæmlega svona: Fjármálaeftirlitið telur sig ekki geta svarað spurningunni þar sem óljóst er við hvað átt er, til hvaða niðurfærslu er vísað í sambandi við húsnæðislán. Það er snúið út úr þessu á þennan veg. Þetta er skriflegt svar sem ég fæ frá efnahags- og viðskiptaráðherra. Næsta svar er nákvæmlega eins. Þeir gera sér ekki grein fyrir því, þó að ég sé að spyrja um húsnæðislán, hvað liggur í spurningunni, til hvers er verið að vísa. Þetta eru vinnubrögðin í hinu nýja opna lýðræðislega þjóðfélagi sem okkur þingmönnum er boðið upp á. Það sem við erum að læra núna eftir hrunið er það hversu þingið var veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég spyr: Hefur eitthvað breyst? Nei, það hefur nefnilega ekkert breyst. Við erum ekkert farin að læra enn, það er það sem er verst við þetta. Þetta er umhverfið sem manni boðið upp á sem þingmanni að starfa í, maður fær ekki einföld svör og meira að segja er það þannig að það er snúið út úr því sem spurt er um.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, ég held að við höfum gert stór mistök með því að færa ekki öll húsnæðislánin í Íbúðalánasjóð úr öllum bönkunum með þeim afskriftum sem þar voru. Þá hefðum við getað gert þetta miklu betur. Ég held að við höfum gert stór mistök. Ég spurði að því þegar forustumenn Íbúðalánasjóðs komu á fund hjá fjárlaganefnd hvort þetta hefði eitthvað verið skoðað. Það hafði ekkert verið spáð í það og ekkert verið skoðað.

Hver gæti hugsanlega verið skýringin á því að þetta hefur ekki verið skoðað? Það er kannski vegna þess að þetta voru nefnilega bestu lánasöfn kröfuhafanna. Það var hægt að afskrifa hjá einhverjum öðrum en ganga svo fram gegn heimilunum í landinu. Þannig varð í raun og veru innra markaðsvirði bankanna til og þeir fengu og eru að selja bréfin núna með hagnaði vegna þess að það er ekki verið að leiðrétta fyrir heimilin í landinu það sem þarf að gera og væri eðlilegt að gera.

Virðulegi forseti. Menn þurfa að viðurkenna þann forsendubrest sem varð. Nú liggur rannsóknarskýrsla Alþingis fyrir og hvað segir hún okkur? Hún segir okkur náttúrlega margt. Ekki það að ég sé búinn að lesa nema lítið brotabrot af henni. Hún segir okkur líka það að þeir sem tóku stöðu gegn krónunni og soguðu inn allan gjaldeyrinn felldu krónuna. Þess vegna fóru íbúðalánin og þau stökkbreyttust og það þýðir forsendubrest. En hann á ekki að leiðrétta nema að því leyti til að það er alltaf verið að færa til greiðslugetu heimilanna eins hátt og mögulegt er. Þannig skal alltaf borga inn í þrotabú kröfuhafanna. Hverjir bera ábyrgð á þessu? Það eru auðvitað þeir — sem er ekkert minni ábyrgð — sem lánuðu bönkunum þessar háu upphæðir til að fara með í svona vegferð. Nei, heimilin í landinu skulu verða látin borga og þau skulu mjólkuð alveg eins og mögulegt er. Það þarf nefnilega að viðurkenna forsendubrestinn sem varð hér þegar bankakerfið féll.

Síðan langar mig líka að velta því upp, virðulegi forseti, ef við setjum þetta í það samhengi þegar fólk tók lán — og ég skil ekki þá umræðu í dag, af hverju fólk er alltaf að tala um eignarvirði. Það er mér algjörlega hulin ráðgáta, þetta er svona huglægt mat. Mér finnst aðalmálið vera í dag að fólkið geti búið í húsunum sínum hvað svo sem þau eru metin á af einhverjum bankastofnunum, á 30 milljónir eða 40 milljónir, það þarf að geta búið í húsunum. Mig langar að taka tvö dæmi. Ef einhver hefur keypt íbúð fyrir 100 milljónir fyrir hrun og tekið fyrir því 90% lán, 90 millj kr. lán í jenum og frönkum eins og margir tóku, þá stendur það lán í dag í sirka 200 milljónum. Síðan gerist það við hrunið að stærstu og dýrustu eignirnar falla mest. Þetta hús er kannski 60–70 millj. kr. virði í dag og 110% leiðin er þá 66 milljónir, sem þýðir að þessi fjölskylda, ef hún fer þessa leið, ef miðað er við markaðsvirði eignarinnar þá er þetta lán tekið niður um 134 milljónir og fjölskyldan sem býr í þessu húsi miðar við það.

Tökum síðan bara venjulegt fólk sem keypti sér íbúð og fór varlega. Það keypti sér íbúð fyrir kannski 40 milljónir og átti helminginn í íbúðinni og fór varlega. Það tók lán upp á 20 milljónir, það lán stendur í 40 milljónum í dag. Íbúðin hefur lækkað náttúrlega hlutfallslega miklu minna en dýru eignirnar, þannig að fólkið sem fór varlega og var búið að leggja til hliðar í áraraðir stendur í raun og veru þannig að 110% leiðin er sú sama og að gera ekki neitt, þ.e. að eignarvirði eða markaðsvirði íbúðarinnar er sama og lánið sem stendur á henni. Fólkið sem fór varlega, gekk rólega um, reyndi að vera skynsamt, stendur allt í einu frammi fyrir því að þurfa að borga af 40 millj. kr. láni, þó að það hafi átt helming í íbúðinni og farið varlega. Er þetta réttlæti? Nei, þetta finnst mér ekki réttlæti.

Síðan skulum við gefa okkur það að eftir þrjú, fjögur, fimm ár, vonandi, muni eignaverð fara að hækka aftur. Þá hækkar akkúrat hjá þeim sem fóru óvarlega og keyptu dýra húsið, þá er það allt í einu komið upp í 90, 100 milljónir aftur eftir einhver ár. Þá á sú fjölskylda allt í einu kannski 35 millj. kr. virði í sinni eign á meðan fjölskyldan sem fór varlega á kannski 1 eða 2 milljónir. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að taka hefði átt öll erlendu lánin og færa þau yfir á upphafsdag lánanna og reikna þau út eins og þetta hefðu verið íslensk lán. Í framhaldi af því sætu allir við sama borð. Svo þegar það væri búið hefðu menn getað sagt: Til þess að leiðrétta hlutina hefðum við getað tekið einhverja dagsetningu á árinu 2008, hvort heldur sem hún er 1. janúar, 1. maí eða 1. apríl, það skiptir ekki máli, og þá hefðum við sagt að frá og með þessum tímapunkti er hámarksverðtryggingin 5%, 6% eða eitthvað svoleiðis, þannig að hluti af því sem verðið hefur fallið fari þá á þá sem lánuðu.

Svo megum við heldur ekki gleyma þeim sem voru að veita ráðgjöf til þessa fólks, þó að allir beri náttúrlega ábyrgð á sínum lánum sem taka þau, en ráðgjöfin var líka með þessum hætti. Forsendurbresturinn og skuldaleiðrétting heimilanna hefur aldrei farið fram, að mínu viti, hún hefur í raun og veru aldrei farið fram.

Virðulegi forseti. Það er þetta sem þarf að gerast og líka annað. Ef menn hefðu einfaldlega gert þetta hefðum við kannski borið gæfu til að gera þetta mjög fljótt. Þá hefðum við kannski ekki orðið fyrir öllum þeim skaða sem við sitjum uppi með í dag því að hann er gífurlega mikill. Þetta er mín skoðun og mér hefur ekki verið sýnt fram á annað. Þó að ég sé oft opinn og þykist vera það, alla vega fyrir hugmyndum og rökræðum ef mér er bent á að þetta sé ekki rétt, þá lít ég svo á að ég sé yfirleitt opinn fyrir hugmyndum og skoðanaskiptum við aðra, en þetta er niðurstaða mín.

Mig langar að enda á, virðulegi forseti, bílalánunum. Ég fékk um daginn hringingu þar sem maður var að lýsa fyrir mér því sem hann hefur lent í. Hann átti bíl þar sem lán stóð í 2 milljónum og það er náttúrlega þessi forsendubrestur og allt sem við þekkjum. Þetta var maður sem hafði farið varlega, átti hluta í bílnum og lánið var komið í 2,2 milljónir. Markaðsvirði bílsins var upp á 1,5 milljónir. Hann lét óháðan aðila meta bílinn sinn upp á 1,5 milljónir. En af því að hann hafði einu sinni misst úr gjalddaga í desember og var aftur byrjaður að borga kom fyrirtækið og tók af honum bílinn, en það mat bílinn á 500 þúsund. Hann gat ekkert gert, ekki neitt, bara af því að hann missti úr einn gjalddaga. Fyrirtækið tók klárlega af honum 1 milljón eftir því sem hann hélt fram og ég hef enga ástæða til að ætla annað. En það sem eftir stóð af láninu hjá þessum ágæta manni, þ.e. mismuninn, 1.700 þúsund, fór kaupleigufyrirtækið í bílunum að rukka hann um og reyna svo að ná af honum íbúðinni hans.

Því segi ég að við hefðum átt að grípa miklu fyrr til úrræða og ég fagna því að menn séu að taka núna þessi skref, en ég held í raun og veru að hv. þm. Þráinn Bertelsson hafi lýst þessu best þegar hann sagði að við séum alltaf að setja fötur undir lekann án þess að taka á honum af alvöru.